149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[22:52]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég heyrði ekki betur en að hv. þingmaður væri að tala fyrir stefnu sem gerir ráð fyrir að ríkissjóður taki þátt í að minnka niðursveiflur en ýkja ekki uppsveiflur. Fjármálaregla í 7. gr. laga um opinber fjármál og svo umgjörð fjármálastefnunnar sem er í 10. gr. geta í raun tekið sveiflujöfnunarhlutverkið úr sambandi þegar þær fara að bíta. Þegar við vorum að ræða og afgreiða lögin um opinber fjármál, mig minnir að það hafi verið árið 2015, þá voru þetta greinar sem mesta ósættið var um, þ.e. fjármálareglan í 7. gr. og svo þessi þrönga umgjörð um fjármálastefnuna.

Miðflokkurinn var ekki til á þeim tíma, en ég vil spyrja hv. þingmann hver sé afstaða Miðflokksins til að hafa svona reglur bundnar í lögum með ákveðnum tölulegum viðmiðum, bæði hvað varðar hallarekstur og eins skuldaviðmið og hvort slíkt vinni hreinlega gegn því sem hv. þingmaður talaði hér fyrir í ræðunni áðan.