149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[23:01]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góðar ræður, bæði seinni ræðuna og líka þá fyrri þar sem hann fór vel yfir sjónarmið sín um forsendur og síðan gerð fjármálastefnunnar. Mig langaði til að spyrja hv. þingmann um það sem segir á bls. 6 í greinargerð með þessari endurskoðuðu fjármálastefnu. Þar segir m.a.:

„Samandregið tekur tillaga um endurskoðun fjármálastefnunnar mið af eftirfarandi áherslum:

Aðhaldsstig opinberra fjármála auki ekki á samdrátt eða hjöðnun hagvaxtar umfram þá aðlögun sem hagkerfið er að ganga í gegnum.“

Ég held að flestir sem hafa komið hingað upp hafi einmitt talað um að það þurfi að huga að því að niðurskurður bitni ekki á þeim sem verst hafa það og að við höldum áfram uppi okkar öfluga velferðarkerfi um leið og við viljum náttúrlega bæta í að byggja upp innviði.

Þá kem ég að grunnrekstrinum. Horfir hv. þingmaður á þennan texta þannig að við sjáum fram á að það verði niðurskurður í grunnrekstrinum? Það er ekkert að því að endurskoða fjármálastefnu en það er eitthvað skrýtið að endurskoða fjármálastefnu sem var ítrekað varað við að ætti að byggja upp með þeim hætti sem ríkisstjórnin gerði. Önnur spurning mín snýr því að því hvort hv. þingmaður telji að við munum horfa fram á niðurskurð í grunnrekstri vegna þessarar stefnu eða stefnuleysis, viljaleysis ríkisstjórnarinnar til að horfast í augu við þann veruleika sem margir vöruðu ítrekað við.