149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[23:07]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Kannski fyrst aðeins að seinni spurningunni og vinnunni í fjárlaganefnd. Nú bíðum við náttúrlega spennt eftir því að fá álitsgerð fjármálaráðs. Hún er alveg grundvallarplagg í þessari vinnu og í framhaldi fáum við náttúrlega umsagnir frá mikilvægum aðilum eins og Samtökum iðnaðarins og Viðskiptaráði sem öll vöruðu við því að núgildandi stefna væri allt of bjartsýn. Það gekk eftir en ríkisstjórnin kaus að taka ekki mark á þeim athugasemdum eða þeim umsögnum og þess vegna erum við komin hingað.

Varðandi áhugaleysi stjórnarþingmanna á þessari umræðu er það mjög áberandi, sérstaklega hvað varðar þingmenn Vinstri grænna. Ég tek heils hugar undir það með hv. þingmanni að auðvitað þarf forsætisráðherra að vera viðstödd þessa umræðu vegna þess að þetta er eins og hv. þingmaður nefndi réttilega grundvallarplagg hverrar ríkisstjórnar. Þetta plagg er orðið ónothæft 14 mánuðum eftir að það var lagt fram. Það er mjög alvarlegur hluti hverrar ríkisstjórnar að horfast í augu við það og að forsætisráðherra skuli ekki vera viðstödd þessar umræður vekur upp margar spurningar og eflaust spurningar um hvort það sé eitthvert ósætti á milli fjármálaráðherra eða ríkisstjórnarflokkanna um þetta mál. Hugsanlega, eins og hv. þingmaður nefndi, er í farvatninu niðurskurður í velferðarkerfinu sem er óhjákvæmilegur í augum stjórnarliða, a.m.k. hluta þeirra, og það skýrir kannski að hluta til ástæðu þess að þeir treysta sér ekki í umræðuna, bara hreinlega vegna þess. Auk þess ættu þingmenn náttúrlega að koma hingað, t.d. af því að Suðurkjördæmi var nefnt sem dæmi, og hafa áhyggjur af því hver staðan verður í sínu kjördæmi. Þeir tjá sig ekkert um það, eins og þetta sé léttvægt. (Forseti hringir.) Það vekur undrun mína.