149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

störf þingsins.

[10:09]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Þessa dagana er fjöldi ungmenna að innrita sig í háskóla landsins og velja sér nám sem verður undirstaða starfsferils og símenntunar þeirra næstu áratugina. Ákvörðun dagsins hefur áhrif á líf einstaklinga en líka hvernig þekking byggist upp og dreifist um samfélagið og undirbyggir verðmætasköpun. Það er þess vegna sérstaklega ánægjulegt að sjá verulega fjölgun kennaranema, bæði á grunn- og meistarastigi.

Núna vil ég ræða um mikilvægi menntunar fyrir matvælaframleiðslu í landinu. Við erum með mörg mál til umfjöllunar á Alþingi sem skapa lagaumgjörð þar sem verðmætasköpun á grunni laganna byggir einmitt á góðri þekkingu á náttúrunni og matvælavinnslu. Þetta eru t.d. mál tengd fiskeldi, umgjörð fyrir sölu ferskra matvæla og veiðar á makríl.

Í morgun hlustaði ég á umfjöllun þar sem kallað var eftir fleiri nemendum í næringar- og matvælafræði en hlutfallslega færri mennta sig á því sviði hér en í löndunum í kringum okkur. Auk þekkingar á matvælafræði er undirstaða matvælaframleiðslu alltaf þekking á náttúrunni og náttúrulegum ferlum, svo sem úr líffræði og jarðfræði. Í búfræði fléttast svo saman þekking á náttúrunni, sjálfbærri landnýtingu og matvælaframleiðslu.

Það er mikilvægt að á Íslandi sé öflug menntun á öllum þeim sviðum til að byggja upp þekkingu á íslenskum aðstæðum og tengja hana alþjóðlegri þekkingu á sömu sviðum. Þrátt fyrir fjölda aðkallandi verkefna hefur fólki sem menntar sig á sviði landbúnaðar og meistara- og doktorsnemum í greininni stórlega fækkað. Á síðustu árum hefur fastráðnum vísindamönnum á þeim sviðum einnig fækkað. Þeirri þróun þarf að snúa við.

Það vill svo til að sami menntunargrunnur er líka mjög mikilvægur fyrir þekkingu á allri sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda og umhverfisvernd, bæði fyrirbyggjandi aðgerðir og viðbrögð við hamfarahlýnun byggja á þekkingu.