149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:30]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Mér þykir rétt að nefna nokkur aðalatriði þessa máls, en vil þó byrja á því að víkja að umræðum sem átt hafa sér stað um eðli þeirrar umræðu sem farið hefur fram um þetta þýðingarmikla mál sem snertir stjórnarskrá, fullveldi og mikilvægar auðlindir þjóðarinnar. Í því má segja að gildi hið fornkveðna, herra forseti, að þeir segja mest af Ólafi kóngi sem hvorki hafa heyrt hann né séð. Gallinn við þetta svokallaða málþóf er að sú umræða, sem hefur verið kölluð því nafni, hefur fjallað um efni málsins frá margvíslegum hliðum. Umræðan hefur falið í sér greiningu á þeim gögnum sem liggja fyrir í þessu máli. Þau eru mörg og viðamikil. Að sama skapi hefur verið aflað mikilla gagna. Miklar upplýsingar hafa borist. Bæði hafa birst greinar í fjölmiðlum og sömuleiðis eru hér mikilvæg samtök sem hafa beitt sér gegn samþykkt þessa máls sem hafa verið ötul við að birta mikilvægar upplýsingar sem lúta að þessu máli, m.a. á vefsíðu sinni á hinu svokallaða alneti. Í þessari umræðu hafa þingmenn Miðflokksins leitast við að greina þessar upplýsingar, draga af þeim ályktanir og meta málið í víðtæku samhengi.

Það er ástæða til að nefna þrjú höfuðatriði. Þau lúta að fyrirvaranum, þau lúta að hugsanlegu skaðabótamáli og þau lúta að tengslum og samskiptum við Evrópusambandið í stóru samhengi. Af hálfu ríkisstjórnarinnar og þeirra sem hafa lýst stuðningi við þetta mál hefur því verið lýst, a.m.k. af hálfu þeirra flestra, að það sem gerði óhætt að samþykkja þetta mál væri að því fylgdi það sem kallað er lagalegur fyrirvari sem myndi sjá til þess, eins og mætti kannski segja, að málað væri út í öll horn og þetta yrði allt saman í stakasta lagi. Þegar spurt hefur verið um þennan lagalega fyrirvara hafa svör allmjög verið á reiki, herra forseti. Fram hafa komið mjög margvíslegar hugmyndir, tillögur og fullyrðingar um það hvar hans sé að leita og er ekki að sjá að endanleg niðurstaða sé fundin í því máli. Ekki hefur verið haft fyrir því, herra forseti, að leggja fram lögfræðilega álitsgerð um þann fyrirvara sem um er að ræða, ef hann þá finnst, þannig að hægt sé að meta málið í slíku samhengi.

Í annan stað, herra forseti, höfum við vakið athygli á mjög mikilvægum þætti. Ég hef ekki tíma til að fara mjög rækilega ofan í það en það er dregið saman í neðanmálsgrein 62 í lögfræðilegri álitsgerð þeirra Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts og Stefáns Más Stefánssonar, þar sem þeir segja, með leyfi forseta, „að hafni Orkustofnun umsókn fyrirtækis“ — og þá mætti nefna þetta erlenda fyrirtæki, Ofurtengingu um Atlantsála eða eitthvað slíkt myndi það kallast á íslensku — „gæti fyrirtækið snúið sér til ESA með kæru sem gæti endað með samningsbrotamáli gegn Íslandi. Slík staða gæti reynst Íslandi erfið.“

Undir þetta hefur tekið opinberlega Arnar Þór Jónsson héraðsdómslögmaður. Í þriðja lagi hefur Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, vakið athygli á því, með leyfi forseta, „að samtímis og menn samþykkja prinsippin í þessu máli eru þeir í raun að viðurkenna þau prinsipp sem full aðild að Evrópusambandinu er reist á“. Það er þetta sem menn standa frammi fyrir. Þetta virðist vera í boði af hálfu stjórnarflokkanna, (Forseti hringir.) Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.