149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:47]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þannig stendur á fyrir Íslendingum að það eru engin ákvæði í stjórnarskránni, nr. 33/1944, sem heimila beinlínis framsal ríkisvalds. Þegar verið var að undirbúa þátttöku í Evrópska efnahagssvæðinu lá ljóst fyrir að þetta væri mjög mikilvægt úrlausnarefni. Voru í því sambandi fengnir fjórir valinkunnir lögspekingar úr fremstu röð og á grundvelli niðurstöðu þeirra var talið að þetta væri óhætt, eins og það var metið af þeirra hálfu.

Á grundvelli þess álits sem liggur fyrir frá þeim, og hægt er að finna á vef Alþingis þegar maður skoðar gögnin sem fylgdu lögum nr. 2/1993, um aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu, er þessi álitsgerð. Um hana hefur verið fjallað af hálfu fræðimanna og er þar ekki síst að nefna í stafrófsröð Björgu Thorarensen lagaprófessor og Davíð Þór Björgvinsson, prófessor og fyrrverandi dómara Mannréttindadómstólsins og núverandi varaforseta Landsréttar. Þau hafa verið mjög framarlega í því að þróa eins konar lagalega kvarða, við getum kallað þá mælikvarða, en það er auðvitað ekki gott orð. Menn geta séð þetta samandregið á bls. 479 í Evrópuréttarbók Davíðs Þórs Björgvinssonar prófessors. Eitt af því sem skiptir mjög miklu máli í því er hvort framsalið sé afmarkað og vel skilgreint. Það er heill kafli um þetta hjá þeim tvímenningum sem oftast er vitnað til. Þegar maður stendur frammi fyrir því að þeir hafa uppi svo sterk varnaðarorð sem þeir hafa, þá vill maður nú hafa verulega varann á sér, svo að ég svari spurningu hv. þingmanns.