149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:08]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að lesa, með leyfi forseta, upp úr erindisbréfi starfshópsins um langtímaorkustefnu frá 23. apríl 2018. Þar segir:

„Orkustefna þarf að líta með heildstæðum hætti til lengri tíma til framboðs og eftirspurnar eftir orku (bæði hvað varðar raforku og hita). Bæði núverandi stöðu og með hliðsjón af áætlaðri þróun til framtíðar og orkuspá. Orkustefna þarf að svara þeirri spurningu hvernig við uppfyllum orkuþörf og orkuöryggi með ábyrgum hætti. Einnig þarf í orkustefnu að fjalla ítarlega um flutnings- og dreifikerfi raforku og taka mið af því sem fram kemur um þau mál í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Orkustefna þarf enn fremur að styðja við skynsamlega atvinnustefnu og líta á samspil orkumála við aðra lykilatvinnugreinar.“

Það er nefnilega þannig að eitt af stefnumálum núverandi hæstv. ríkisstjórnar er orkumál, orkustefna fyrir land og þjóð, sem er mikilvægt atriði.

Af hverju var ekki kosið, spyr hv. þingmaður, í síðustu kosningum um orkupakka þrjú? Það var heldur ekki kosið um hann 2013, 2016 eða 2017. Þar sem er þó jákvætt og jákvæðast held ég við umræðu núna um þriðja orkupakkann er að það er yfirleitt verið að ræða orkumál þjóðarinnar sem eru, eins og við höfum margoft minnst á hér, allt of lítið rædd á vettvangi þingsins.

Ég óska eftir því, það væri jákvætt í allri umræðu, að hv. þingmenn Miðflokksins kynni sér erindisbréf og þá vinnu sem er unnin í orkustefnunni til þess að ná umræðunni um þau mál upp á aðeins hærra plan.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvernig tengist umræðan um þriðja orkupakkann orkustefnu fyrir Ísland?