149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:01]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, níu fundir í utanríkismálanefnd, segir hv. þingmaður. Mig minnir að þeir hafi verið sjö fyrir þessa umræðu sem nú stendur. Það er seinni umræða og þá væntanlega tveir þar áður. Af því að hv. þingmaður gerir þetta að umtalsefni vil ég benda á að við fórum fram á það þingmenn Miðflokksins að fjölmargir gestir sem hefðu getað varpað frekara ljósi á þetta mál kæmu fyrir nefndina. Við fórum líka fram á að ýmis mál sem við töldum órædd yrðu tekin þar fyrir. Auðvitað er það fráleitt og í rauninni stórundarlegt að þegar liggur fyrir fjórði orkupakkinn, og var víst formlega afgreiddur bara á meðan á umræðu um þetta mál hefur staðið, og á meðan fólk úti í bæ hefur fengið kynningu á þessum fjórða orkupakka, skuli hann hvergi nefndur í tengslum við þriðja orkupakkann. (Forseti hringir.) Á sama tíma eru þau rök færð fyrir innleiðingu þriðja orkupakkans (Forseti hringir.) að við verðum að gera það því að við innleiddum fyrsta og annan.