149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:04]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Það sem hv. þingmaður spyr um lýtur að því sem menn hafa kosið að kalla neytendavernd og um leið markaðsvæðingu sem fylgir þriðja orkupakkanum. Eins undarlega og það kann að hljóma þá á þetta allt saman að vera hluti af neytendaverndinni og markaðsvæðingunni. Eins og í svo mörgum tilvikum öðrum þá hafa þessi áform, hvort sem þau eru æskileg fyrir Evrópusambandið eða ekki eða Evrópusambandslöndin, ég skal ekki dæma um það, öfug áhrif á Íslandi. Við búum við mikla sérstöðu í orkumálum og höfum getað, í þessu stóra og strjálbýla landi, framleitt mikla orku og dreift henni með því að sú starfsemi hefur verið á hendi opinberra aðila að miklu leyti sem eiga að geta ráðist í stórar langtímafjárfestingar og selt orkuna á skikkanlegu verði.

Erlendis er þessu öðruvísi farið. Þar óttast menn að stórir aðilar á þessum markaði geti verið of ráðandi og þar af leiðandi lagt of há gjöld á neytendur. Þá er brugðist við með því að reyna að búta þetta í sundur á allan hátt, jafnvel brytja niður fyrirtækin, a.m.k. takmarka mjög möguleika manna á að hafa hlutina á einni hendi og gera þá á hagkvæman hátt.

Svo eru það ríkisafskiptin sem Evrópusambandið virðist nú stundum sjá ofsjónum yfir þegar það ræðst í sínar markaðsvæðingarherferðir. Það er held ég veruleg hætta á því að það gæti verið gripið inn í og dregið úr möguleikum okkar á því að ráðast í niðurgreiðslu á köldum svæðum.