149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:19]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það eru kannski nokkur atriði sem er vert að nefna í þessu samhengi. Eins og hv. þingmaður undirstrikaði og áréttaði í sínu svari þá er orkustefnan lykilatriði í grundvallarstefnu Evrópusambandsins. Sú stefna að Evrópa eigi að vera eitt orkusvæði og það eigi að útrýma orkueyjum eins og við myndum kannski kallast.

Við veitum því athygli að það kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu að á fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar, sem nokkuð hefur verið haldið á lofti af stuðningsmönnum þessa máls, hafi framlag fulltrúa Evrópusambandsins þar verið — þrátt fyrir að sérstaða Íslands hafi verið áréttuð þar og skilningur annarra EFTA-ríkja, þ.e. Noregs og Liechtensteins á sérstöðu Íslands — að árétta þá afstöðu Evrópusambandsins að það væri brýnt að Ísland innleiddi þriðja orkupakkann.

Annað atriði sem er vert að nefna er að í þessu máli sýnist vera gengið mjög nærri tveggja stoða kerfinu. Það birtist í því að ESA, Eftirlitsstofnun Evrópu, stofnun sem við Íslendingar eigum aðild að, tekur við málum sem drögum frá ACER, sem er Evrópustofnun.

Það þriðja er að sú hugmynd virðist vera uppi að það sé einhvern veginn ekki viðeigandi að Ísland geri athugasemdir við einstakar gerðir heldur samþykki þær fljótt, örugglega og möglunarlaust, rétt eins og ætti við um hvert annað ríki Evrópusambandsins.(Forseti hringir.)

Ég tek undir með hv. þingmanni að það er mjög sérkennilegt að sjá þessa leið teppalagða (Forseti hringir.) eða malbikaða eða hvaða orð maður á að hafa af þeim flokkum sem mynda þessa ríkisstjórn.