149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:45]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann fór mikið yfir söguna, velti fyrir sér afleiðingum af innleiðingu orkupakka eitt sérstaklega. Mig langar að spyrja hvort hann geti sett innleiðinguna á fyrsta orkupakkanum í samhengi við það hvernig farið var með hitaveitumálin á Suðurnesjum, hvað kom á undan og hvað kom á eftir. Þetta er eitt.

Ég hjó sérstaklega eftir því að með orkupakka eitt var bannað að gera sérsamninga sem komu mörgum til góða en það var greinilega klippt á það. Ég vil taka undir með hv. þingmanni þegar hann talar um að við þurfum að gera þessa hluti á okkar forsendum og þá sérstaklega með lagningu sæstrengs. Því er haldið fram að í orkupakka þrjú sé mikið gert úr neytendavernd en þegar maður skoðar hugsunina með orkupakka eitt þá var aldeilis ekki verið að hugsa um neytendavernd þegar bannað var að gera þessa sérsamninga, ef ég skil hv. þingmann rétt.

Þar sem málið er svona óljóst væri voða fínt ef við gætum fengið gerða skoðanakönnun hreinlega meðal þjóðarinnar um hvernig staðan er, hvort fólk sé almennt með eða á móti. Ég gef mér að fólk sé kannski meira á móti þar sem ég tel að okkar umræða hafi verið til að upplýsa almenning. En ég vil sérstaklega byrja á þessum hluta málsins: Hvert leiddi innleiðing á orkupakka eitt, sérstaklega með tilliti til sérsamninga sem höfðu verið gerðir?