149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:32]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Sinnaskipti Vinstri grænna, jafn rækileg og þau eru, eru óskýrð. Það er hins vegar full ástæða til að halda þeim til haga, hvernig sem fer með þetta mál. Það hlýtur að verða eitt af því sem menn taka með sér frá þessum umræðum, þessi sinnaskipti Vinstri grænna sem allt í einu er orðin leiðandi afl í markaðsvæðingu orkuauðlinda Íslands. Það er staðreynd sem kom ekki fram í kosningabaráttu þess flokks fyrir síðustu kosningar. Það er rétt að halda því til haga inn í framtíðina, hvernig sem fer með þetta mál og hvað sem verður um það, og segja fólki að þessi sinnaskipti urðu og þá sérstaklega þeim sem kusu Vinstri græna, sem sum hafa verið í sambandi við okkur í Miðflokknum og hvatt okkur til að standa í ístaðinu hvað þetta mál varðar. Það hlýtur að koma að því á einhverjum tímapunkti, hugsanlega fyrir næstu kosningar, að menn verði krafðir svara af sínum kjósendum sem kusu þá í síðustu kosningunum, frambjóðendur Vinstri grænna. Þeir hljóta að verða spurðir: Hvað varð til þess að menn tóku þessa U-beygju frá þeirri grundvallarhugsjón flokksins að vernda náttúru og vernda almannaeignir fyrir ásælni auðjöfra og yfirþjóðlegs valds? Þeir vilja ekki svara okkur og þurfa svo sem ekkert að gera það frekar en þeir vilja en á einhverjum tímapunkti verða menn krafðir svara og þá verða þeir að segja rétt og satt frá.