149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:37]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að spyrja þingmanninn um framsalið á valdi, fullveldisframsali, hvort hann sé hlynntur því að stjórnarskránni verði breytt á þann veg og það sé hægt án þess að þenja stjórnarskrána og vera alltaf með þessa óvissu um hvort við séum að brjóta stjórnarskrá eða ekki. Við þingmenn höfum svarið eið að halda stjórnarskrána þannig að þingmaðurinn þurfi ekki að vera í óvissu um það ef hann ætlar að greiða atkvæði með sumum EES-málum þar sem álitamál eru. Er hv. þingmaður hlynntur því að stjórnarskránni verði breytt á þann veg að hann gæti með góðri samvisku haldið stjórnarskrá en jafnframt greitt atkvæði með málum, EES-málum? Eða vill hann halda stjórnarskrána eins og hún er og sleppa því að greiða atkvæði með þessum EES-málum og fara kannski að færa okkur út úr því samstarfi? Er hann hlynntur því að við færum okkur fjær því samstarfi, að við færum að segja í fleiri tilfellum: Nei, við ætlum ekki að gera þetta, það er stjórnarskrárlegur fyrirvari, við getum ekki gert þetta?

Hvert er hann tilbúinn að fara með þetta, annars vegar í þá áttina að víkka út heimild í stjórnarskrá, að afsala fullveldi til þess að vera á innri markaðnum, eða fara hina leiðina, að færa okkur út úr EES-samstarfinu og kannski alla leið á endanum? Það skiptir máli að fá þennan þátt á hreint. Til dæmis varðandi það að menn eru búnir að tala hér um alls konar hagsmuni sem ríkja á milli eins og í sjávarútveginum. Þótt við séum í EES-samstarfinu þá eru þeir ekki með vald yfir sjávarauðlindinni. En um leið og fiskurinn er veiddur má flytja hann innan Evrópska efnahagssvæðisins, sem er einmitt ástæðan fyrir því að sjávarútvegsfyrirtækin (Forseti hringir.) eru hlynnt þessu máli og EES-samstarfinu. Hvar er þingmaðurinn?