149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

dagskrá fundarins.

[10:14]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti telur þetta ekki mjög flókið og ætlaði svo sem ekki að ræða það frekar en gerð var tilraun með að komast áfram með nefnt mál og fundað um það í fjóra og hálfa klukkustund í gær. Þegar þeim fundi lauk voru jafn margir á mælendaskrá eða heldur fleiri en voru við upphaf umræðunnar fjórum tímum áður. Sú tilraun leiddi í ljós að í því máli var algjörlega óbreytt staða.

Þess vegna undrast forseti ef menn eru ekki tilbúnir til að reyna að nýta tímann í eitthvað annað sem hugsanlega skilar okkur einhverju og hugsanlega þýðir að einhver mál fái afgreiðslu í dag. Það kemur forseta mjög á óvart ef menn taka því illa að byrjað sé á þeim málum sem full samstaða er um. Þá er forseta orðinn verulegur vandi á höndum, ef ekki er einu sinni vilji til þess að vinna eitthvað í þeim málum sem full samstaða er um og skriflegar yfirlýsingar allra þingflokka liggja fyrir um í nefndarálitinu um stuðning og vilja til afgreiðslu á.

Annars ræðir forseti þetta ekki frekar.