149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

dagskrá fundarins.

[10:22]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Fundur þingflokksformanna með herra forseta um þrjúleytið í gær var skýr og stuttur. Til hans var boðað með stuttum fyrirvara. Þar var tilkynnt um að nú ætti að taka orkupakkann á dagskrá og ræða það mál til enda.

Á þeim fundi var sérstaklega að því spurt hvort mætti eiga von á því að gerð yrðu einhver sérstök hlé á orkupakkaumræðunni. Aðspurður svaraði forseti því að svo væri ekki, það mál yrði rætt til enda.

Forseti var mjög skýr. Hann var mjög skýr, það var ekkert svigrúm til að misskilja orð forseta. Það er því algjörlega með ólíkindum að forseti alls þingsins gjörbreyti um kúrs án nokkurra skýringa og án nokkurs samtals. (Forseti hringir.) Það er eiginlega með hreinum ólíkindum, herra forseti, hvernig herra forseti hagar störfum sínum í þessu máli. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)