149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

dagskrá fundarins.

[10:27]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Mér finnst þurfa að leiðrétta eitt, ég veit ekki hvort það er útúrsnúningur eða misskilningur. Vandamálið sneri ekki að því hvaða mál nákvæmlega eru á dagskrá heldur því að það kom öllum á óvart að þessi mál skyldu vera á dagskrá, þegar ég segi öllum meina ég stjórnarandstöðunni, í ljósi þess sem hafði verið rætt um áður. Gagnrýnin snýr því ekki að hinni eiginlegu dagskrá heldur að samráðsleysinu varðandi dagskrána. Nú erum við á svolítið erfiðum tímum í þingstarfinu. Það er margt sem þarf að klára. Um það eru allir sammála en það þarf líka að gerast með eðlilegum hætti. Ef samráðið dettur niður, ef það er ekki hægt að eiga stutt samtal um það hvernig breytingar verða á fyrirhugaðri dagskrá, er rosalega erfitt að hreyfa sig áfram í átt að einhverjum árangri. Ég bið hæstv. forseta um að reyna að koma samráði aftur á með eðlilegum hætti.