149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

dagskrá fundarins.

[10:34]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Forseti. Það er að teiknast upp mynd sem er einhvern veginn svona: Forseti tilkynnir á fundi þingflokksformanna að ekki náist samningar og að haldið verði áfram við að klára orkupakka þar til yfir lýkur. Af reynslu af umræðum um orkupakkann síðustu 140 klukkutíma dregur forseti þá ályktun að þetta muni klárast á fjórum tímum. [Hlátur í þingsal.] Hann verður hissa þegar það tekst ekki kl. 19.30 í gærkvöldi, tekur sér góðan tíma til að taka ákvörðun, setur rétt fyrir miðnætti breytta dagskrá inn á vefinn en hefur augljóslega ekki tíma til að láta þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar vita. Nú skiljum við þetta.

Að öllu gamni slepptu þykir mér dapurlegt, og ég tek undir það sem hér hefur verið sagt á undan, ef forseti er í alvöru undrandi á því að við séum úfin, þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar, yfir því að hafa ekki verið sýnd sú virðing að vera látin vita af þessari breytingu. Það efast enginn um vald forseta til að gera slíkt. En ég ætla að halda áfram að efast um heilindi forseta sem kemur svona fram. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)