149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta.

494. mál
[11:18]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ræðuna. Sú sem hér stendur er ekki í hv. efnahags- og viðskiptanefnd sem mér skilst að hafi fjallað um þetta mál og þess vegna hef ég auðvitað ekki verið að hlusta á þá gesti og fengið þær upplýsingar sem þar eru. Engu að síður langar mig aðeins að spyrja hv. þingmann út í það sem er í greinargerð með frumvarpinu og biðja um smáútskýringu á því hvers vegna stundum er talað um millilið, stundum þjónustuþega og -veitanda, stundum hýsingaraðila o.s.frv. því að ég er að reyna að átta mig á hvar ábyrgðin liggur hjá hverjum. Ég kem kannski inn á það í seinna andsvari mínu. Ég er að reyna að átta mig á misræminu í öllu þessu orðavali.