149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

virðisaukaskattur.

52. mál
[15:04]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Mig langaði að segja örfá orð en ekki til að orðlengja málið neitt frekar, hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir er búin að fara vel yfir þetta mál sem hún er 1. flutningsmaður að og það dygði í sjálfu sér fyrir þá sem hér stendur að lýsa yfir ánægju með málið og framtakið en ég ætla þó að fjalla um það í nokkrum orðum.

Í fyrsta lagi langar mig, eiginlega bara vegna þess að mér líður betur með það, að útskýra að á þessu ágæta máli sem er þverpólitísk samstaða um og flutningsmenn koma úr mörgum flokkum er ekki að finna neinn flutningsmann úr þingflokki Viðreisnar. Ástæðan er ekki sú, eins og við fórum yfir með hv. 1. flutningsmanni á sínum tíma, að við styðjum ekki málið, sem við sannarlega gerum, heldur trúðum við sérstaklega á þeim tíma og við erum svo sem ekki búin að bila í trúnni enn þá að hér verði gerðar einhverjar grundvallarbreytingar á þessu virðisaukaskattskerfi. Við töldum að til að vera trú þeim skoðunum okkar og tillögum sem við höfum lagt fram á svipuðum tíma færi betur á því að við færum þessa leið. Málið hefur núna hins vegar fengið umfjöllun hjá efnahags- og viðskiptanefnd þar sem fulltrúi okkar, hv. þm. Þorsteinn Víglundsson, er á meirihlutaálitinu og styður málið.

Hv. þm. Þórhildur Sunna fór svolítið yfir þá stöðu hvernig við hefðum eiginlega öll þessi ár látið það viðgangast að jafn mikilvæg vara sem tengist öðru kyninu, einu kyni, kvenkyninu, væri látin falla undir þetta hærra þrep og þá rifjaðist eiginlega upp fyrir mér að fyrir sirka tveimur árum þegar við vorum í þingsal í miðri umræðu um greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðisþjónustunni vöktu konur athygli mína á því að kostnaðarþátttöku almennings í heilbrigðisþjónustu mætti skipta í þrennt, þ.e. í greinar sem eingöngu eða fyrst og fremst eru fyrir karlmenn eða karlmenn nota, greinar eða flokka sem bæði kyn, karlar og konur, nota og síðan konur. Þegar þetta var tekið saman kom í ljós að greiðsluþátttaka einstaklinga, karla og kvenna vissulega, í þeim heilbrigðisaðgerðum eða greinum væri töluvert hærri en þar sem karlar væru í meiri hluta eða jafnt.

Á þeim tíma var töluverð umræða um hinn svokallaða bleika skatt sem hér hefur verið nefndur. Hann laumar sér inn ansi víða. Ég held að við þurfum að vera verulega vel vakandi fyrir þessu. Mér fyndist mjög áhugavert að skoða í heild hvernig stendur á því að hann á einhvern veginn greiðari leið að hærri skattlagningu á vörur sem konur almennt nota, stúlkur og konur, en sérstaklega þurfum við að vera vakandi fyrir því að löggjafinn, opinber þjónusta, þjónusta sem ríkið niðurgreiðir, mætir kostnaði við, falli ekki þar undir sérstaklega. Þar eigum við a.m.k. að ganga á undan með góðu fordæmi.

Þetta mál er gríðarlega gott og ég er mjög ánægð með að sjá þá almennu samstöðu sem ég held að megi kalla þó að nefndin skrifi ekki undir álitið í heild. Við vitum ekki nákvæmlega hvernig þetta fer, en svo virðist sem meiri hluti okkar sé á þessu máli, sé á því að þetta sé réttlætismál, sem mögulega er eins og það er fyrir athugunarleysi og slysni en ekki einbeittan vilja. Það er bara kominn tími til að laga þetta.

Ég þakka hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur fyrir að koma fram með þetta mál og ég vona að það fari hratt, örugglega og vel í gegnum Alþingi.