149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

virðisaukaskattur.

52. mál
[15:14]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Smára McCarthy aftur fyrir andsvarið. Þetta er svolítið mergurinn málsins. Það er eitthvað sem truflar við þá tilhugsun að fara svona bita fyrir bita ofan í þetta kerfi, ýmislegt reyndar vegna þess að stóra spurningin er hvaða áhrif það hefur ef fleiri svona atriði eru tekin út, allt að því geðþóttaákvarðanir þannig séð, vegna þess að það þarf líka að stilla tekjur og gjöld ríkisins í stóru myndinni. Það þarf að fara í svona breytingar eins og samráðsvettvangurinn fór yfir og skoða þá heildaráhrifin, þ.e. tekjurnar og hvaða áhrif þetta hefur á neyslu vegna þess að þetta eru mjög neyslustýrandi skattar.

Ég held að það sé verulega mikilvægt að við gefum okkur tíma, óháð því hvar við erum stödd í hagsveiflunni sjálfri til að skoða þetta, fara faglega yfir málin. Hvað viljum við fá út úr svona skattkerfi? Af hverju erum við með nákvæmlega þessa tegund af skattkerfi til staðar? Hverjir eru kostirnir við það umfram annað? Hvað viljum við fá út úr þessu? Síðan þurfum við að taka ákvörðun um fjölda skattþrepa og að sjálfsögðu stilla af prósentutöluna. En einföldun á þessu þannig að fólk viti að hverju það gengur frekar en að vera að nýta þetta í makróneyslustýringu held ég að sé leiðin. Þetta er kannski mál sem bíður seinni tíma og vonandi sitja fleiri í þingsal þegar það verður rætt. Þetta er góð byrjun og það verður gaman að sjá málið verða að veruleika.