149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

virðisaukaskattur.

52. mál
[17:19]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það var alls ekki hugsunin, það hvarflaði ekki að mér eina mínútu, ekki sekúndu, að einhver ætlaði að nota þungunarrof sem getnaðarvörn. Ég var bara að hugsa um þá sem einhverra hluta vegna, vegna fíknar, komast ekki í getnaðarvarnir. Ég var að hugsa um fólk sem er á mjög lágum bótum eða launum og annað og tekur séns vegna fjárskorts. Það er ömurlegt til þess að vita að einhver geti ekki vegna fjárhagsstöðu náð sér í getnaðarvarnir. Það er það sem ég er að hugsa um. Ég er að hugsa um einstaklinga í þessari stöðu, sem þjóðfélagið er búið að koma því í með því að hafa launin svo lág að það hefur ekki efni á að kaupa þá hluti sem það þarf á að halda. Eins og við vitum er framfærsla Tryggingastofnunar ríkisins, sem er undir venjulegum stöðlum, ekki fátækt heldur sárafátækt, hún er svo lág. Það væri eðlilegt og sjálfsagt að þessir einstaklingar gætu komist í og fengið þessa þjónustu ókeypis, hvort sem það eru einnota eða langtímagetnaðarvarnir. Ég spyr hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála því. Þarna á sú hugsun aldrei að spila inn í að maður hafi ekki efni á að útvega sér hlutina.