149. löggjafarþing — 119. fundur,  7. júní 2019.

stjórnsýslulög.

493. mál
[10:37]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Virðulegi forseti. Mig langaði til að koma inn á nokkur atriði varðandi þetta góða mál. Kannski er rétt að byrja á að þakka stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fyrir góða vinnu í málinu, þar voru mikilvægar breytingar unnar og að ég held allar málinu til bóta.

Ég verð að vera ósammála hv. þingmanni og framsögumanni málsins sem sagði að þetta mál hefði verið unnið með hraði. Hv. þm. Helga Vala Helgadóttir nefndi að þetta virtist hafa verið unnið með hraði. Það var nefnilega þannig að ég var skipaður í stýrihópinn árið 2012 sem vann þetta mál og fékk Pál Hreinsson til aðstoðar við að þróa frumvarpið og má í rauninni segja að þetta mál hafi verið fast inni í ráðuneyti síðan 2012, sem verður að kallast nokkuð erfið fæðing frekar en hitt. Það hversu margir vankantar eru á málinu er meira til marks um það hvað málið hefur verið lengi í vinnslu en að það hafi verið unnið of hratt. Þegar mál eru unnin of hægt hættir þeim til að safna á sig ýmiss konar óþægilegum atriðum í ljósi þeirrar sögu sem gerist í kjölfarið og skilningur okkar á þessum málaflokki hefur aukist verulega á síðustu tíu árum, sem er hið besta mál.

Það sem mig langaði aðallega að koma inn á í málinu er að setja forsöguna í samhengi. Eins og kemur fram í nefndarálitinu snýst þetta um að skýra tilgang og inntak þagnarskylduákvæða sem er mjög mikilvægt vegna þess að þagnarskylduákvæði eru, sérstaklega gagnvart stjórnvöldum, afskaplega mikilvæg upp á að verja réttindi einstaklinga. En að sama skapi geta þau verið vandkvæðum háð í mörgum tilfellum þar sem fólk er að vinna innan opinberra stofnana.

Þegar við fórum að skoða þetta fyrir um sjö árum kom í ljós að það voru, ég man ekki alveg fjöldann en það var einhvers staðar í kringum 150–170 mismunandi þagnarskylduákvæði í íslenskum lögum. Mörg þeirra voru jafnvel í einhvers konar mótsögn hvert við annað og það var í rauninni ógjörningur fyrir nokkurn opinberan starfsmann að hafa fullan skilning á því hvaða þagnarskylduábyrgð hann hefði gagnvart nokkru máli. Sem gerði að verkum að fólk var jafnvel tregt til að veita þjónustu af ótta við að brjóta þagnarskylduákvæði sem það hafði kannski ekki fullan skilning á eða að það hreinlega forðaðist að gera nokkuð í ákveðnum málaflokkum, sem er skiljanlegt þegar fólk er með mörg ólík og flókin þagnarskylduákvæði hangandi yfir sér.

Það að gera þetta skýrara og tiltaka nánar hvaða þagnarskylda er til staðar snýst ekki síður um að einfalda þetta allt saman og gera það að verkum að opinberir starfsmenn geti með nokkurri vissu vitað til hvers er ætlast af þeim. Þetta frumvarp nær mjög langt inn í þann pakka. Þó að hér sé glímt við fjölmarga tugi þagnarskylduákvæða sitja eftir þagnarskylduákvæði gagnvart ákveðnum starfsstéttum, t.d. læknum, sem er eðlilegt að séu aðeins útvíkkaðri og nákvæmari.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni. Mig langaði bara til að það kæmi fram að við erum að skýra þessa hluti, að við erum að reyna að einfalda hlutina þannig að fólk skilji til hvers er ætlast af því. Ég hlakka til að sjá þetta mál loksins verða að lögum vegna þess að ég er búinn að vera að bíða eftir því í átta eða níu ár og þetta er alveg stórkostlegt.