149. löggjafarþing — 119. fundur,  7. júní 2019.

stjórnsýslulög.

493. mál
[10:42]
Horfa

Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir innlegg hans. Mig langar aðeins að bregðast við þessum orðum um flýti. Það er kannski helst af því að verið er að vinna nokkur mál úr þeim hópi sem var skipaður af forsætisráðherra í mars 2018 til að fjalla um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis og var þeim hópi m.a. falið að fara yfir það frumvarp sem hafði verið sent inn. Það kom svolítið fram í máli þeirra að vegna þess að þetta voru fjölmörg frumvörp, fjölmörg atriði, hefði hópurinn gjarnan viljað hafa haft meiri tíma.

Þetta voru drög sem dr. Páll Hreinsson skilaði inn til ráðuneytisins á sínum tíma og má ætla að það hafi mögulega ekki verið fullunnið frumvarp, a.m.k. fann nefndin sig knúna til að fara yfir og bæta við atriðum og kannski er það það sem nefndin átti við þegar þau þar töluðu um að þetta hefði verið gert í hálfgerðum flýti. En það er allt í lagi, frumvarpið er komið. Það er mjög þarft, gott og brýnt. Þetta andsvar mitt felur í rauninni ekki í sér neina spurningu.