149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

ávana- og fíkniefni.

711. mál
[11:32]
Horfa

Frsm. velfn. (Halldóra Mogensen) (P):

Forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með frávísunartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni. Nefndin undirstrikar stuðning sinn við framangreint markmið, þ.e. að koma á neyslurýmum, en telur rétt að vísa málinu aftur til ríkisstjórnarinnar til frekari vinnslu. Í frumvarpinu er lagt til að bætt verði við lög um ávana- og fíkniefni ákvæði sem heimili stofnun og rekstur neyslurýma. Með neyslurými er átt við lagalega verndað umhverfi þar sem einstaklingar sem eru 18 ára og eldri geta neytt ávana- og fíkniefna í æð undir eftirliti heilbrigðisstarfsmanna og þar sem gætt er fyllsta hreinlætis, öryggis og sýkingarvarna.

Í umsögnum um málið kom fram nokkuð afdráttarlaus stuðningur við það markmið að koma á fót neyslurýmum. Fram kom við umfjöllun nefndarinnar að neyslurými hefðu verið rekin um nokkra hríð í Danmörku í kjölfar breytinga á ávana- og fíkniefnalöggjöfinni sem heimili stofnun og rekstur slíkra rýma. Í Kaupmannahöfn hefði verið gert samkomulag við lögregluna um þær reglur sem gilda eigi í rýmunum og hvernig löggæslu sé háttað í kringum þau. Segir m.a. í samkomulaginu að í tilgreindum götum í grennd við neyslurýmið sé varsla fíkniefna til eigin neyslu í neyslurými refsilaus.

Við umfjöllun málsins var bent á það að töluvert hefði verið litið til framangreinds fyrirkomulags við gerð frumvarpsins. Væri þannig í greinargerð gert ráð fyrir því að sveitarfélögin gerðu samkomulag við lögreglu um það hvernig löggæslu yrði háttað í kringum rýmin, á sama hátt og gert hefði verið í Kaupmannahöfn. Virðist t.d. að mati nefndarinnar gert ráð fyrir því að refsilausu svæðin verði skilgreind nánar í slíku samkomulagi.

Í umsögn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu eru gerðar athugasemdir við þessa útfærslu. Segir m.a. að ekki sé að finna í gildandi lögum, eða þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu, heimild fyrir lögreglu til þess að semja um refsilaus svæði en það væri verulegum vafa undirorpið að lögregla gæti gengið til slíkra samninga án skýrrar lagaheimildar. Í umsögn ríkissaksóknara var tekið undir framangreinda gagnrýni.

Þá óskaði nefndin eftir minnisblaði frá dómsmálaráðuneytinu þar sem gerð yrði grein fyrir því hvernig samráði við ráðuneytið væri háttað, hvort frumvarpið tryggði fullnægjandi lagastoð fyrir samningum sveitarfélaga við lögreglu um starfsemi neyslurýma og hvort gera þyrfti breytingar á öðrum lögum til að tryggja lagaumhverfi neyslurýma. Samantekt dómsmálaráðuneytisins um málið barst nefndinni 24. maí og er í henni tekið undir framangreind sjónarmið.

Líkt og fram hefur komið tekur nefndin heils hugar undir markmið frumvarpsins og telur brýnt að ráðast í þær lagabreytingar sem eru nauðsynlegar til þess að tryggja lagalegan grundvöll fyrir starfsemi neyslurýma. Nefndin telur hins vegar ljóst að frumvarpið tryggi ekki með fullnægjandi hætti lögmæti starfseminnar og að endurskoða þurfi ýmis atriði þess með víðtækara og virkara samráði.

Nefndin bendir á að hér er um mjög viðkvæma löggjöf að ræða sem getur haft mikil áhrif á heilsu fólks og réttarstöðu þess. Þá reyni í slíkri löggjöf á flókið samspil á milli réttinda neytenda, hlutverks lögreglu og ábyrgðar heilbrigðisstarfsmanna. Í því sambandi undirstrikar nefndin að engin af þeim sjónarmiðum sem hér hafa verið reifuð lýsa andstöðu við neyslurými. Þvert á móti kom fram við umfjöllun um málið ríkur vilji til þess að leysa úr framangreindum álitamálum í samráði við heilbrigðisráðuneytið. Beinir nefndin því til heilbrigðisráðuneytisins og dómsmálaráðuneytisins að halda áfram að vinna í málinu og leggja það fram að nýju eins fljótt og auðið er. Var m.a. rætt í nefndinni að við myndum helst vilja fá það til okkar strax í haust ef möguleiki er á því. Mér skilst að það sé vilji í ráðuneytunum til að flýta þessu máli mjög.

Við umfjöllun nefndarinnar kom einnig fram það sjónarmið að markmiði neyslurýma yrði best náð ef varsla neysluskammta fíkniefna yrði gerð refsilaus. Nefndin bendir á að það skjóti skökku við að afnema refsingu við háttsemi sem almennt er ólögmæt innan tiltekins svæðis á grundvelli sjónarmiða um skaðaminnkun. Í greinargerð frumvarpsins er bent á að neyslurými séu fyrst og fremst hugsuð sem úrræði fyrir þá sem eru langt leiddir í fíkn og eygja litla von um að hætta sinni neyslu. Með því að koma á fót neyslurýmum er stigið skref til viðurkenningar á því að þessir einstaklingar séu fyrst og fremst með sjúkdóm. Nefndin telur fulla ástæðu til þess að kanna hvort tilefni sé til að löggjöfin gangi enn lengra í því að koma til móts við þessa einstaklinga svo að þeim verði ekki gerð refsing vegna þess sjúkdóms. Beinir nefndin því til heilbrigðisráðherra að vinna markvisst að því að afnema refsingar fyrir vörslu á neysluskömmtum fíkniefna.

Með vísan til framangreinds leggur nefndin til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Undir nefndarálitið skrifar sú sem hér stendur og að auki Ólafur Þór Gunnarsson, Ásmundur Friðriksson, Andrés Ingi Jónsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Halla Signý Kristjánsdóttir og Vilhjálmur Árnason.