149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

ávana- og fíkniefni.

711. mál
[12:19]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að veita hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni andsvar en ummæli sem hann lét falla í ræðu hér áðan hvöttu mig hins vegar til dáða að fara aðeins yfir sögu bannstefnunnar. Hv. þingmaður heldur því fram, og ég tek alveg undir það, að ástæðan fyrir því að áfengi nýtur allt annarrar stöðu en önnur vímuefni er vissulega sú að það eru ákveðin menningarleg tengsl og það er út af því að vesturveldin fíla svolítið áfengið. Það er mjög einfölduð útskýring á því hvers vegna áfengi nýtur allt annarrar stöðu en önnur vímuefni. Hins vegar á sagan um stríðið gegn fíkniefnum og bannstefnan sér töluvert margþættari hliðar sem mig langaði að fara aðeins út í eða eins langt og ég næ á þessum níu mínútur sem ég á eftir, virðulegi forseti, af þessari ræðu.

Vissulega, eins og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson kom inn á rétt áðan, hefur mannkynið neytt hugvíkkandi efna í árþúsundir. Vímuefni á borð við ópíum, kóka, kannabis, khat, peyote, betel og kava hafa verið notuð í alls kyns tilgangi í gegnum þessi árþúsund. Mannfólkið hefur m.a. notast við þessi efni til lækninga, til trúarlegra athafna, til næringar sem og til að skemmta sér saman. Neysla vímuefna er því alls ekki nýtt fyrirbrigði og horfi maður til þessarar löngu sögu vímuefnaneyslu mannkynsins má horfa á alþjóðlegar tilraunir til að banna ræktun, framleiðslu, dreifingu og neyslu vímuefna sem spánnýs fyrirbrigðis.

Bannstefnan fæddist á 20. öldinni og hana má að hluta til rekja til þess að með auknum milliríkjaviðskiptum og fólksflutningum jókst neysla vímuefna verulega. Skaðleg áhrif óhóflegrar neyslu urðu meira áberandi í samfélaginu. Það er þó mikil einföldun að halda því fram að það sé eina ástæðan fyrir því alþjóðlega lagaumhverfi sem ríkir um vímuefnaneyslu jarðarbúa í dag. Heimurinn fyrir 100 árum var ekki svo ólíkur heiminum sem við upplifum í dag því að rétt eins og nú var heiminum þá stjórnað með tilliti til viðskiptahagsmuna valdamestu þjóðanna. Tilurð og þróun alþjóðlegrar bannstefnu gegn vímuefnum ber þess einmitt sterkt vitni.

Á 19. öld neytti fólk úr öllum stéttum þjóðfélagsins kóka og ópíums, t.d. í Kanada og Bandaríkjunum, Evrópu og Ástralíu. Efnanna var neytt á fjölbreytilegan hátt, þau voru aðallega notuð sem verkjalyf eða róandi lyf. Lítið sem ekkert eftirlit var með neyslu efnanna, hvort sem heldur af hendi lækna eða ríkis. Almenningsálitið var á þá leið að neysla vímuefna væri val hvers og eins og samfélagið leit ekki niður á þá sem það gerðu. Lítið var hins vegar vitað um virkni vímuefnanna og því var algengt að fólk yrði háð þeim eða notaði þau fram úr hófi. Þannig má nefna að algengast var að millistéttarkonur, oftast húsmæður, væru háðar ópíum eða kókaíni, eða fólk sem vann í heilbrigðisgeiranum.

Á þessum tíma var ópíumneysla einnig mjög útbreidd í Kína og nágrannalöndum þess. Í gegnum söguna höfðu Kínverjar neytt ópíums sem hluta af helgiathöfnum, á tyllidögum og mannfögnuðum. Ópíum var einnig notað sem verkjalyf vegna ólæknandi eða krónískra sjúkdóma. Flest heimili áttu ópíum í verkjaskápnum þar sem það var notað sem lyf við hinum ýmsu sjúkdómum. Þrátt fyrir að ópíumneysla væri mjög algeng í Kína var mjög sjaldgæft að fólk ánetjaðist efninu og almennt neyttu Kínverjar ópíums á ábyrgan hátt og í hóflegu magni og hafði því neysla efnisins hvorki skaðleg áhrif á heilsu né langlífi meiri hluta neytenda heldur þvert á móti. Almenningsálitið átti þó eftir að breytast verulega, bæði í Kína sem og á Vesturlöndum. Um hálfri öld fyrir aldamótin 1900 hófust nefnilega gríðarlegir fólksflutningar frá Kína til Evrópu, Kanada, Bandaríkjanna og Ástralíu. Talið er að á þessu tímabili hafi um 2 milljónir Kínverja verið fluttar til Vesturlanda sem ódýrt vinnuafl. Aðkoma þeirra átti stóran þátt í breyttu viðhorfi Vesturlandabúa gagnvart vímuefnaneyslu. Mikil andúð og rasismi mætti kínverskum innflytjendur vestan hafs og ópíumreykingar þeirra urðu mikið áhyggjuefni. Þannig urðu ópíumreykingar ógnandi athæfi. Þær voru kallaðar kínversk plága sem leiddi til siðleysis, aukinna lögbrota og almennrar samfélagslegrar hnignunar. Þessi augljósi rasismi og fordómar eru talin hafa valdið því að mörg lönd settu í fyrsta sinn lög um neyslu vímuefna og þá sérstaklega um ópíumreykingar útlendinga.

Í Kína varð viðsnúningur á viðhorfum gagnvart ópíumneyslu af öðrum ástæðum en þó beintengdum. Kínverska valdastéttin áleit gríðarlegt framboð ópíums og vandamálin sem fylgdu neyslu þess bera vitni um óvelkomna íhlutun vesturveldanna. Kína hafði verið þröngvað til ópíumviðskipta við Breta eftir að þeir síðarnefndu sigruðu þá fyrrnefndu í ópíumstríðunum 1839–1842 og 1856–1860 og til að ljúka fyrra stríðinu hafði kínverska stjórnin þurft að undirrita Nanking-sáttmálann þar sem breska heimsveldinu áskotnuðust full yfirráð yfir Hong Kong. Það var síðan aðallega þaðan sem Bretar sigldu með milljónir Kínverja úr landi til að nota sem ódýrt vinnuafl á Vesturlöndum.

Nanking-sáttmálinn neyddi kínversku stjórnina til að opna fyrir viðskipti við Breta í nokkrum hafnarborgum Kína en Bretar notuðu þessa skilmála m.a. til að flytja þangað óhóflegt magn af ópíum frá Indlandi. Það var því blanda af rasisma og vilji fyrir siðferðisumbótum sem varð til þess að Vesturlönd byrjuðu að beita sér fyrir alþjóðlegri stjórn á ópíumviðskiptum á seinni hluta 19. aldar. Kínverjar á hinn bóginn álitu alþjóðlega stjórn nauðsynlega til að berjast gegn nauðungarviðskiptum sínum við breska heimsveldið.

Bandaríkin og Kína voru þau lönd sem börðust hvað harðast fyrir því að banna og refsivæða vímuefni á heimsvísu. Fulltrúar þeirra gengu út af ópíumráðstefnunni árið 1925 þar sem þeir töldu of litlar líkur á því að útkoma ráðstefnunnar myndi leiða í lög nægilega strangar hömlur á viðskipti. Á meðan Bandaríkin reyndu sitt ýtrasta til að koma á alþjóðlegu banni á áfengi og annars konar vímuefni græddu gömlu nýlenduríkin á tá og fingri á framleiðslu þeirra. Gömlu nýlenduríkin áttu gríðarstór ræktunarlönd í nýlendum sínum og einokuðu mjög arðbæran markað fyrir ópíum í Asíu. Þau sáu líka lyflækningamörkuðum í Evrópu og Bandaríkjunum fyrir kókaíni, ópíum, heróíni og morfíni, en eftirspurn eftir kókaíni hafði farið gríðarlega vaxandi í Evrópu í fyrri heimsstyrjöld. Það var notað sem svefnlyf og geðlyf og til að auðvelda hermönnum að ráða við sálfræðilegar afleiðingar hryllingsins sem fylgdi skotgrafahernaði. Lyfjafyrirtæki í Þýskalandi, Hollandi og Bretlandi sóttu hvað mestan gróða í sölu á kókaíni á stríðsárunum.

Bandaríkjamenn höfðu töluvert öðruvísi siðferðiskennd og lífsviðhorf en gömlu nýlenduríkin og voru þar af leiðandi í töluverðri andstöðu vegna sinnar sannkristnu púrítanísku viðhorfa sem gætti meðal bandarískra leiðtoga á þessum tíma, á millistríðsárunum. Bandaríkjamenn bönnuðu áfengi og önnur vímuefni í viðleitni sinni til að lifa algjörlega flekklausu lífi hér á jörð, eins og það var orðað, en yfirvöld í Evrópu létu sér samt sem áður ekki segjast.

Bannárin svokölluðu í Bandaríkjunum stóðu frá 1920–1933 þegar Bandaríkjastjórn leyfði aftur framleiðslu og neyslu áfengis en á þessu tímabili reyndu Bandaríkjamanna eftir fremsta megni að koma á bannstefnu gegn öðrum vímuefnum í anda áfengisbannsins á heimsvísu. Auðvitað var þessi herferð ekki einungis byggð á trúarhita og kristilegri hugmyndafræði heldur höfðu forsprakkarnir verulegra þjóðarhagsmuna að gæta með því að berjast á vel auglýstan hátt gegn alþjóðlegum viðskiptum með ópíum. Þar sáu þeir sér leik á borði að draga verulega úr gríðarlegum hagnaði nýlenduríkjanna gömlu. Annar hvati fyrir stefnu Bandaríkjanna var að þeir vildu koma sér í mjúkinn hjá kínverskum stjórnvöldum til að auka viðskipti milli landanna tveggja.

Strax á fyrstu árum áfengisbannsins í Bandaríkjunum varð sprenging í skipulagðri glæpastarfsemi. Stjórnmálamenn, lögreglumenn og glæpamenn sáu margir sér áhættulítinn leik á borði til að græða stórkostlega á nýjum svörtum markaði með áfengi. Leiðtogar í Evrópu voru langt frá því að vera sannfærðir um ágæti þess að innleiða sömu bannstefnu þegar sögur bárust frá Bandaríkjunum um að mafíur og önnur glæpasamtök hefðu náð yfirráðum yfir heilum borgum vestan hafs. Bandaríkjamönnum tókst því ekki að semja um alþjóðlega bannstefnu fyrr en eftir seinna stríð en þá höfðu Bandaríkin einmitt nógu mikinn áhrifamátt til að þrýsta í gegn markmiði sínu um vímuefnalausa veröld.

Þetta er bara mjög stutt upprifjun af fyrstu skrefunum í sögu bannstefnunnar. Bann við áfengi var við lýði í frekar stuttan tíma í Bandaríkjunum en þegar það leið undir lok var tekið upp á því að sníða nákvæmlega sama kerfi utan um bannstefnu gegn vímuefnum nema það gekk töluvert betur að flytja hana út, með efnahagsþvingunum og líka með hótunum um ofbeldi af hálfu Bandaríkjanna, en kannski einmitt bannstefnu þeirra af púrítanískari kantinum gegn áfenginu. Það á sér svo sem margar skýringar og sögur hvers vegna það gekk betur þá, væntanlega vegna þess að Bandaríkin stóðu uppi sem sigurvegarar í seinni heimsstyrjöld og höfðu mjög mikil áhrif eftir það. Stríðið gegn fíkniefnum hefur alltaf verið mjög þægilegur stefnupunktur fyrir Bandaríkin vegna þess að þarna er verið að berjast við ósýnilegan óvin. Hann deyr aldrei og það er mjög auðvelt að draga hann upp þegar sælast á af hálfu ríkisins í meira vald yfir borgurunum.