149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

802. mál
[21:47]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og ekki síst þær áhugaverðu athugasemdir sem hann hafði fram að færa og kannski þá lærdóma sem hægt er að draga af því stóra máli sem liggur fyrir Alþingi og snýr að dýrasjúkdómum eins og það heitir, en er auðvitað í tengslum við innflutning á hráu kjöti. Það er rétt sem hv. þingmaður segir að þar er núna gert ráð fyrir einum 17 tölusettum aðgerðum. Þegar málið kom fyrst fram var lagt upp með líklega einar 12, þeim hefur fjölgað í meðförum Alþingis á þessu máli. En það sem hv. þingmaður segir undirstrikar mikilvægi þess að í málum af þessu tagi séu aðgerðir tímasettar og fjármagnaðar. Reyndar er það þannig, án þess að ég ætli að gera frekar að umræðuefni málið sem lýtur að hráa kjötinu, að það sýnist skorta alvarlega á hvort tveggja, tímasetningu og að fjármögnun sé að fullu tryggð. Reyndar er það svo að þeir sem hafa um þessi mál fjallað, til að mynda gestir á vettvangi hv. atvinnuveganefndar, hafa lagt mikla áherslu á þessa tvo þætti.

Í frumvarpinu er fjallað um að ákvæði laga um þjóðgarðinn á Þingvöllum gangi framar ákvæðum laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta. Það þurfi þess vegna ekki að fá leyfi sveitarstjórna vegna nýtingar lands og landsréttinda innan þjóðgarðsins, heldur er fullnægjandi að fá til þess leyfi Þingvallanefndar.

Ég ætla að leyfa mér að lýsa því að þetta ákvæði sýnist vera til (Forseti hringir.) bóta, en ég hefði mikinn áhuga á að vita afstöðu hv. þingmanns til þessa atriðis.