149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

802. mál
[22:18]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni enn og aftur fyrir góðar spurningar. Það hefði svo sannarlega komið mér verulega á óvart ef hv. þingmaður hefði ekki tekið þeirri áskorun minni sem fólst í ræðunni þar sem ég fór yfir sögu Þingvalla og nefndi kristnitökuna, upphaf allsherjarþings og færslu Öxarár. Það kom mér alls ekki á óvart að hann skyldi nefna einmitt það sem hann nefndi, að kristintakan hafi farið fram hugsanlega árinu áður, þ.e. árið 999 en ekki árið 1000. Ég geri ekki athugasemdir við það, alls ekki. En ég nefndi árið 1000 því að það er svona meira bara í hugum fólks, held ég.

Varðandi það að stýra ágangi og álagi á einstaka staði innan Þingvalla er gjaldtaka auðvitað einn möguleikinn. Ég held að í Þingvallanefnd vilji menn fyrst og fremst fara varlega. Þess vegna var farið í ítarlega greiningu á því hver áhrifin væru á Silfru við núverandi álag sem er ansi mikið. Ég man ekki tölur í því sambandi, en það ansi mikið og fer vaxandi. Það var gert í þeim tilgangi að við myndum alls ekki stíga of langt í þeim efnum og vildum fara eins varlega og hægt væri og láta náttúruna og Þingvelli, vatnasviðið, gróðurinn og söguna njóta vafans. Við vorum ansi fegnir þegar við fengum niðurstöðuna um að álagið væri ekki komið að þolmörkum. En það var nánast, það er ekki langt í það. Það er auðvitað kominn tími til að huga að þessum málum.