149. löggjafarþing — 121. fundur,  12. júní 2019.

þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

802. mál
[11:16]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er mér sönn ánægja að greiða atkvæði með frumvarpinu sem á rót sína að rekja til Þingvallanefndar þar sem ég er einn af nefndarmönnum. Það er mjög mikilvægt að mótuð sé atvinnustefna og mikilvægt er að ágangi í þjóðgarðinum á Þingvöllum sé stýrt með það í huga að vernda hina einstöku náttúru sem þar er og lífríkið sem er líka einstakt. Má þar nefna Þingvallaurriðann, bleikjustofnana og lífríkið í heild sinni á Þingvöllum. Þar er einnig vagga þjóðarinnar, þ.e. þar var þjóðríkið stofnað árið 930. Þarna sættist þjóðin, tvær fylkingar sættust á að taka upp kristna trú og segja má að mjög mikilvægt sé að við stöndum áfram vörð um þennan mikilvægasta stað þjóðarinnar.