149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[13:28]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða frumvarp um fiskeldi og ég ætla aðallega að koma inn á umhverfisþáttinn og umhverfisvernd. Sérstaklega vil ég taka á í sambandi við náttúrulega fiskstofna eins og silung og lax og áhrif fiskeldis á þá náttúrulegu stofna. Þar verðum við að gæta þess algjörlega að áhrifin verði helst engin, en eins lítil og hægt er. Ég segi fyrir mitt leyti að ég hef náð því að veiða í flestöllum landshlutum. Fyrir vestan er stórkostlegt að vera og maður óttast þá hættu sem svona stórfellt fiskeldi getur haft á lífríkið. Ég vil taka fram að ég er að skoða nefndarálit meiri hlutans og þar vil ég benda á að nefndin segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Nefndin hvetur þar með til árvekni við víðtækt mat á umhverfisáhrifum reksturs fiskeldisstöðva og leggur áherslu á að þeim sé mætt með vísindalegum mótvægisaðgerðum þar sem þess gerist þörf og leitast verði við að lágmarka þau umhverfisáhrif …“

Það sem einum finnst lágmark getur öðrum þótt hámark af umhverfisáhrifum og þetta er eiginlega vægt orðalag. Þarna á umhverfið og náttúran alltaf að vera í fyrsta sæti og við eigum að sjá til þess að ef á einhvern hátt er hægt að velja á umhverfið alltaf að verða valið. Við eigum að tryggja það.

Í kafla um laxalús og önnur sníkjudýr er talað um mótvægisaðgerðir gegn sníkjudýrum og sjúkdómum og orðrétt segir þar:

„Nefndin áréttar mikilvægi þess að varnaraðgerðir gegn laxalús og öðrum sníkjudýrum séu umhverfisvænar.“

Ég segi að þær eigi bara að vera umhverfisvænar. Við eigum bara að tala skýrt. Ef til er umhverfisvæn vara og hún er dýrari þá á bara að velja hana.

Til að lengja ekki mál mitt mikið ætla ég að taka undir flestallt í nefndaráliti frá minni hluta atvinnuveganefndar og þar tek ég sérstaklega undir í sambandi við Jökulfirðina. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Þó að ekki hafi verið fjallað um það sérstaklega í nefndinni í vetur er ljóst að það er afar umdeilt hvort heimila eigi fiskeldi á verndarsvæðum eins og t.d. í Jökulfjörðum. Þeir tilheyra að hluta Hornstrandafriðlandinu sem er einstakt svæði á heimsvísu. Þar lagðist búseta af um miðja síðustu öld, áður en innviðir eins og vegir og raflínur voru lagðar. Minni hlutinn telur mikilvægt að slíkar náttúruperlur fái að njóta sérstöðu sinnar og verði friðaðar til framtíðar. Er því lögð til sú breyting á 3. gr. að óheimilt verði að heimila nýtingu Jökulfjarða undir fiskeldi.“

Þetta styð ég sérstaklega vegna þess að þarna á ég mínar rætur. Í Jökulfjörðum, í Drangavík, er móðir mín fædd og afi bjó þar og þetta er einstakt svæði sem við eigum að vernda á allan hátt. Það er algjör óþarfi að hugsa til þess að fara út í svona starfsemi þarna.

Síðan er það með blessaða laxalúsina, ég veit ekki hvaða lögmál gilda um hana en með venjulega lús var talað um að óþrif yllu henni. Ég hugsa að það sama gildi um laxalúsina þannig að því meira eftirlit og þrif, og að það sé passað upp á að ekki verði óþrif af laxeldinu, því minni líkur eru á að þessi óværa komi. Þar af leiðandi vil ég líka taka undir með áhyggjum veiðifélaga á landinu af fiskeldi. Við þurfum einhvern veginn og eigum að reyna að ná sátt við veiðifélög og annað þannig að við getum verið með þessar atvinnugreinar í sátt og samlyndi. Ég skil þörfina á því að vera með fiskeldi í þessum viðkvæmu byggðum þar sem þörf er á atvinnuuppbyggingu. Þetta er gífurlega gott mál að því leyti til en eins og ég segi eigum við og verðum alltaf að hafa náttúruna að leiðarljósi.