149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[14:07]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þetta svar. Mér finnst prýðilegt að þetta geti unnið saman og að við höfum sömu sýn í þeim efnum. Þá er það tvennt í viðbót sem kom fram í ræðu þingmannsins, annars vegar burðarþolsmatið. Nú er það á höndum Hafró að fara með þann þátt málsins. Það hefur komið töluvert fram hjá gestum í nefndinni að líka sé horft til þess að staðkunnugir, þeir sem eru kunnugir staðháttum í hverjum firði, séu hafðir með til skoðunar um burðarþolsmat. Það er náttúrlega misjafnt á milli fjarða hvernig straumar eru, hvernig botninn er, hvernig lífríki hreinsar sig á hverjum stað og hvað það getur borið mikinn fisk. Ég held að ekki sé minnst á það í frumvarpinu sem slíkt en ég myndi telja mikilvægt að hafðir væru með einstaklingar sem eru kunnugir staðháttum.

Í sambandi við Ísafjarðardjúpið kom réttilega fram í ræðu þingmannsins að það er lokað en þingmaðurinn talaði um að hún væri bjartsýn á að það myndi skýrast þar fljótlega. Mig langar að spyrja þingmanninn hvort hún geti varpað ljósi á þann skýrleika, hvað hún sjái fyrir sér í því að mál í sambandi við eldi í Ísafjarðardjúpi sé að skýrast.