149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[14:09]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það eru einmitt mótvægisaðgerðirnar sem koma skýrt fram í þessu máli öllu og hafa líka fengið enn þá meira vægi í breytingartillögum nefndarinnar í 2. umr. Þær koma til með að styrkja áhættumatið og vinnu Hafrannsóknastofnunar við það gagnvart stöðum eins og Ísafjarðardjúpi. Ég held að það muni gera það að verkum að meiri líkur en minni séu á því að það liggi, svo ég tali mjög pólitískt, fyrir fyrr en seinna hver sú niðurstaða verður. Ég held að þar á bæ, hjá okkar færu vísindamönnum á Hafrannsóknastofnun, hafi menn þegar þetta frumvarp verður samþykkt, og eru þegar byrjaðar reyndar, þau tæki og tól til að vinna með mótvægisaðgerðum til þess að vinna að sínu og byggja enn frekar upp það líkan sem áhættumatið byggist á.

Ég er mjög bjartsýn á það og tel ánægjulegt að þetta sé allt að fara í þann farveg. Ég undirstrika að mjög brýnt er að við klárum málið á þessu þingi, að við drögum það ekki fram á haustið. Ég treysti því að þingheimur allur hafi skilning á því að greinin kallar eftir því að ljúka málinu.