149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[14:30]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum nýja frumvarpið um fiskeldi. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að fiskeldið sem slíkt hefur skapað mikla ólgu úti í samfélaginu. Sitt sýnist hverjum, þar á meðal mér á sínum tíma, áður en ég naut þeirra forréttinda að fá að vera í hv. atvinnuveganefnd. Ég var alfarið á móti því að hér yrði ræktaður fiskur í opnum sjókvíum, ég horfði á hræðilegar myndir þar sem náttúran og allt heila klabbið varð bara ónýtt og mér leist hreinlega ekkert á blikuna. Ég fékk, einmitt eins og hv. þm. Sigurður Páll nefndi áðan, að njóta þeirra forréttinda að heimsækja sunnanverða Vestfirði í fyrrahaust og sjá í hnotskurn hvernig hlutirnir fara fram, hvernig í rauninni fiskeldi það sem hefur verið byggt upp á þessum stað hefur gjörbreytt öllum aðbúnaði fólksins í þessum litlu sjávarplássum. Við höfum víst ekki farið varhluta af því og vitum öll hvaða afleiðingar það hafði þegar hið svokallaða framsal varð á kvótanum og byggðarlögin, litlu sjávarplássin úti um allt land, voru meira og minna skilin eftir í sárum þar sem íbúarnir flúðu burt vegna þess að þeir höfðu ekkert lengur við að vera. Engar heimildir voru skildar eftir í byggðarlögunum og blómlegustu byggðir breyttust í brothættar á ótrúlega skömmum tíma.

Hins vegar sá maður hvernig er hægt að gera hlutina og gera þá vel. En þá kemur þetta: Hver er váin og hverjir eru mest uggandi um hvaða áhrif t.d. slysasleppingar á fiski sem ekki er geldfiskur getur haft á villtu laxastofnana? Eðli málsins samkvæmt er þetta eitthvað sem við þurfum að ræða og það er hér á hinu háa Alþingi sem stjórnmálamenn verða að taka ábyrgð á því hvernig við komum þessu frá okkur. Það er búið að reyna í þessu frumvarpi að koma til móts við ýmsar tillögur að breytingum til að bæta og reyna að tryggja betur öryggi. Við viljum ekki slysasleppingar. Við viljum ekki laxalús. Við viljum ekki hafa mikið af lyfjagjöfum og við viljum alls ekki að það verði allt of mikil mengun undir þessum kvíum sem hafi síðan áhrif á lífríkið allt í kring. Þess vegna, virðulegi forseti, erum við virkilega að reyna að koma til móts við að þetta verði ekki gert. Við höfum, eins og atvinnuveganefnd — ég varð reyndar ekki þeirrar gæfu aðnjótandi að geta verið með þeim þegar þau heimsóttu Noreg á dögunum til að skoða hvernig Norðmönnum hefur gengið að móta sína stefnu og efla sitt laxeldi. Ég heimsótti hins vegar Færeyjar með Vestnorræna ráðinu og þar fengum við líka að sjá hvernig Færeyingar hafa mótað stefnu sína og framfylgt henni. Það sem ég hef mestar áhyggjur af hvað snýr að okkur — þegar við tölum um Noreg, Færeyjar og Ísland — er að við erum ólík og höfum ólíkar aðstæður. Við erum ekki með langa, djúpa og kyrra firði. Við höfum góða strauma þar sem við sjáum okkar kvíar settar niður og mögulega meiri ræstingu þar af leiðandi en það breytir ekki þeirri staðreynd að það er miklu meira eftirlit eins og í Færeyjum þar sem er mælt vikulega, þar sem er farið út í kvíarnar og verið að mæla og greinilega finnst löggjöfinni sitt um að það verði ekki sett ný ræktun í kvíarnar fyrr en eftir að þær hafa fengið að vera í ákveðið marga mánuði án nokkurs eldis. Ég held að það sé á bilinu 6–8 mánuðir sem á bara alls ekki að setja ný seiði í kvíarnar heldur lofa þeim að hvílast. Það er grundvallaratriði.

Það er líka grundvallaratriði að við virðum það að hér í samfélaginu er villti laxinn okkar, þar er veiði og bændur úti um allt sem virkilega byggja afkomu sína á og eiga mikilla hagsmuna að gæta að lenda ekki í nákvæmlega því að það vaði eldisfiskur upp í árnar og hafi um leið óafturkræfar afleiðingar. Auðvitað er þetta á ábyrgð stjórnvalda. Ég hefði viljað sjá mun meira eftirlit í nærumhverfinu þar sem við vitum að hafa orðið slysasleppingar og það hafi tekið allt upp í tíu daga að bregðast við og mæta á staðinn. Það er ekki viðunandi. Það virðist vera farið í áttina að því a.m.k. að taka betur utan um það. En betur má ef duga skal. Ég hefði viljað sjá miklu meiri og strangari eftirfylgni, sjá litið t.d. til Færeyinga sem eru mjög duglegir. Þær þjóðir sem við höfum talað um, bæði Norðmenn og Færeyingar, hafa lent í sínum hrakningum hvað þetta varðar. Við megum kannski teljast heppin að því leyti að við getum varast að lenda í sömu hremmingum og þær gerðu. Það breytir samt ekki þeirri staðreynd að við verðum að reyna að gera þetta í sátt. Við getum ekki verið með þjóðina algjörlega klofna hvað varðar þetta og við verðum líka að reyna að gera þetta þannig að koma til móts við þessar brothættu byggðir og sjá hvað þetta er að gera. En til þess að það verði sátt er það okkar hér að koma í veg fyrir að það verði óafturkræfur skaði á lífríkinu.

Ég ætla ekki að hafa þetta langt en auðvitað verðum við líka að taka utan um brothættu byggðirnar okkar og auðvitað verðum við að gera okkar besta hvað það varðar. Það er það sem við erum að gera hér og nú. Við lentum í því ekki alls fyrir löngu að þurfa að hlaupa upp til handa og fóta þar sem allt í einu féll niður leyfi til að halda áfram starfsemi á Vestfjörðum. Eiginlega varð uppi fótur og fit í þinginu og okkur tókst á einum degi að koma í veg fyrir skaða. Þess vegna er afskaplega mikilvægt að við tryggjum löggjöfina en við verðum að halda áfram að bæta hana. Við verðum að halda áfram að tryggja. Ég heyrði t.d. að nú er búið að fara að ráði Norðmanna, a.m.k. hvað það varðar að setja upp myndavélabúnað í Djúpið. Það breytir ekki þeirri staðreynd að þeir eru með kafara sem fylgist reglulega með og það er virkilega haldið utan um það, það er virkilega verið að passa að reyna að koma í veg fyrir sleppingar og að þetta fari bara út um allar koppagrundir. Það er nákvæmlega það sem við verðum að gera og ég trúi því að hv. formaður atvinnuveganefndar láti ekki sitt eftir liggja, ef ég þekki hana rétt, að halda áfram að bæta þetta og laga. Ég hef því miður ekki getað fylgst nógu vel með í nefndinni undanfarið vegna starfa í annarri nefnd sem skarast alltaf á við atvinnuveganefnd en það breytir ekki þeirri staðreynd að síðast þegar ég var þarna var verið að tala um það sem mér þótti ekki nógu gott: Það var í rauninni bara komið á eina hönd að fylgja þessu meira og minna öllu eftir. Það var í sambandi við Hafró. Þó að margt megi gott um hana að segja og að þar séu okkar sérfræðingar hefði ég viljað sjá víðtækara utanumhald en kannski hefur það breyst. Ég kem að vísu ekki auga á það í frumvarpinu. Það var eins og að ráðherra væri að setja frá sér umboð sitt bara yfir á Hafró og mér fannst það eiginlega skrýtið. Þess vegna væri gaman ef hv. þingmaður og formaður atvinnuveganefndar segði mér eitthvað skemmtilegt um að það væri búið að laga þetta og ég hafi bara verið svo treg í þessu tilviki að ég hafi ekki komið auga á það. Mér þætti afskaplega vænt um það.

Ég held að við séum á réttri leið þrátt fyrir að ég hafi, eins og ég segi, í upphafi verið alfarið á móti laxeldi í því formi sem við erum að ræða hér og nú og í rauninni voru rök mín næstum því bara „af því bara“. Nú veit maður betur og ég er búin að afla mér þekkingar sem ekki var til staðar þá og ég segi bara við þá sem eru á móti þessu „af því bara“ að ég hvet þá endilega til að kynna sér hversu gríðarlega mikið hagsmunamál það er fyrir þá sem að koma og fá vinnu. Ég held að það séu um 300 störf í kringum þetta, t.d. á sunnanverðum Vestfjörðum. Ætli það væru þá ekki, miðað við fólksfjölda, í kringum 9.000 Reykvíkingar ef við værum að tala um stærðarhlutföllin? Ég hugsa að það yrði ansi stór biti fyrir okkar að kyngja ef 9.000 eða 10.000 Reykvíkingar myndu missa vinnunni á einni nóttu. Þannig að við verðum að halda áfram að reyna að byggja upp brothættu byggðirnar og koma til móts við þær með öllum ráðum.

Eins og ég segi hvet ég atvinnuveganefnd og okkur hér öll áfram til dáða og vona að við höldum vel utan um þetta og tökum ábyrgð á því og gerum okkar besta.