149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[14:58]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fyrst og fremst þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég veit að hann vill leggja sig fram um að sýna sanngirni og annað eftir því. Ég vil hins vegar leyfa mér að láta þess getið og ítreka það að ég hefði talið að ekki væri úr vegi að þeim þingmönnum sem hafa lagt sig fram um að reyna að skapa sem breiðasta samstöðu um þetta mál, eins og það birtist til að mynda í meirihlutaáliti og stuðningi við það, væri sýndur sá trúnaður og kannski sú tillitssemi að þeim yrði haldið upplýstum um það hvernig gengi að finna viðunandi niðurstöðu í málinu sem vissulega, eins og fram kom í máli hv. þingmanns, er ekki auðvelt viðfangs en sem er þannig vaxið að ekki er hægt að sjá fyrir sér að það verði frágengið öðruvísi en að viðunandi og, svo ég noti orð hv. þingmanns, sanngjörn niðurstaða fáist í það.

Þetta vildi ég sagt hafa um þetta efni — mér þykir ágætt að hér sé í salnum annar hv. þingmaður úr stjórnarmeirihlutanum, ég á við hv. þm. Kolbein Óttarsson Proppé sem jafnframt er framsögumaður þessa mikilvæga máls — að þessi sjónarmið komi alveg skýrt fram og að upplýsingar í þessu efni eru orðnar mjög brýnar. Ég veit að menn taka það mjög alvarlega þegar kallað er eftir þeim og líka þegar þannig stendur á að tíminn er kannski farinn að gerast ærið knappur.