149. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2019.

kjararáð.

413. mál
[13:45]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Það frumvarp sem hér liggur fyrir um fyrirkomulag launa æðstu embættismanna er afrakstur verulegrar vinnu þar sem stjórnvöld kölluðu í fyrsta sinn til aðila vinnumarkaðarins til samráðs og stefnumótunar um laun æðstu embættismanna vegna þess að þessi tilteknu laun hafa verið stöðugur ásteytingarsteinn og deiluefni í samfélaginu, ekki bara undanfarin ár heldur áratugi.

Niðurstaða þeirrar stefnumótunar sem unnin var í samráði þriggja ráðuneyta, fulltrúa opinbera og almenna vinnumarkaðarins og fulltrúa atvinnurekenda, með formanni sem báðir aðilar gátu sæst á, var að rétt væri að færa þetta fyrirkomulag til þess sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndum og draga þannig úr deilum um úrskurði kjararáðs, sem oft komu með löngu millibili og fólu í sér hækkanir yfir langt árabil.

Ég tel að þetta frumvarp, eins og það lítur út, verði mikið framfaraskref til að koma á auknum stöðugleika á vinnumarkaði og skapa um leið eðlilegt samtal um það hver launaþróun í landinu eigi að vera.

Niðurstaðan var líka sú að hrófla ekki við þeirri launauppbyggingu sem lögð var til í þessu frumvarpi, m.a. vegna þess að horft var til kjararáðshópsins, tekið meðaltal launaþróunar þar og borið að launaþróun á hinum almenna markaði. Þannig að þessar tölur eru ekki gripnar úr tóminu. Á bak við þær liggur veruleg vinna og ég verð að segja að ég gef lítið fyrir breytingartillögu sem hér er lögð fram, fyrst og fremst í þágu mælskulistar, til að varpa rýrð á þá sem sitja sem ráðherrar og gefa í skyn að heilindi þeirra séu ekki næg í starfinu, allt snúist þetta um launatölur. Ég gef bara ekkert fyrir það. Ég held að þingmenn ættu frekar að horfa til þeirrar vinnu sem liggur að baki þeirrar skýrslu sem hér hefur verið lögð fram, þeirrar vinnu sem hv. efnahags- og viðskiptanefnd hefur í kjölfarið lagt í málið, samþykkja þetta mál og reyna að stíga eitt framfaraskref til aukinnar sáttar á vinnumarkaði án þess að gera þetta enn og aftur að ásteytingarsteini að óþörfu.

Ég legg til að frumvarpið verði samþykkt og þessari breytingartillögu hafnað, herra forseti.