149. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2019.

kjararáð.

413. mál
[13:48]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að taka aðeins til máls vegna þeirrar tillögu sem fram er komin og snýr að því að jafna launakjör framkvæmdarvaldsins við það sem almennt gerist á þinginu. Út af fyrir sig má alveg velta fyrir sér hvaða viðmið eigi að gilda varðandi innbyrðis samræmi kjara þeirra sem eru í efstu lögum þrískiptingarinnar en fram til þessa hefur verið horft til þess að forsætisráðherra væri því sem næst jafnsettur æðstu handhöfum dómsvalds í landinu. Þá hefur sömuleiðis verið litið til forseta, að aðrir ráðherrar væru þar skör neðar. Einhverjum kann að þykja, eins og hv. flutningsmanni greinilega, að þar sé of mikið bil myndað milli löggjafarþingsins og viðkomandi fagráðherra. Þá er til þess að líta að þingið gerði fyrir nokkrum árum breytingu á þessu hvað snertir þá formenn flokka sem eru í stjórnarandstöðu og setti 50% álag á greiðslur til þeirra svo þeir mættu vera álíka settir og ráðherrar.

Það er þess vegna stórundarlegt að hlusta hér á umræðu um að það sé slíkur launamunur hjá ráðherrum og hinum sem eru í þinginu að það sé sérstakur hvati í því fólginn til að kasta frá sér stefnumálum sínum og mynda ríkisstjórn til að tryggja sér betri kjör. Með þessum rökum væri alveg eins hægt að segja að álagsgreiðslan til formanna sé sérstakur hvati til að stofna nýjan stjórnmálaflokk, gerast í honum formaður og ná sér þannig í greiðsluna. [Hlátur í þingsal.] Ég myndi ekki halda því fram að einhver myndi gera það nokkurn tímann, en þetta er röksemdafærsla á viðlíka plani, sem mér finnst þessu máli ekki samboðin. Ég vil taka undir með forsætisráðherra þegar hún segir að hér sé á ferðinni mál sem hefur verið vel undirbúið. Það hefur fengið mikla umfjöllun í nefnd, það hefur tekið breytingum í nefnd svo takast megi enn betri sátt um það. Ég hef áður, sem fjármála- og efnahagsráðherra, lagt fram frumvörp um kjararáð og ég veit hversu viðkvæmt málið er, við höfum rætt það margoft hér. Mér finnst við vera komin að niðurstöðu sem við ættum að geta sameinast um og ég tel að sú tillaga sem hér hefur verið mælt fyrir sé ekki til þess fallin að gera málið betra.