149. löggjafarþing — 125. fundur,  19. júní 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[11:07]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er athyglisvert svar sem ég þakka þó fyrir. Það hefur margkomið fram í umræðunum, ef ég hef skilið rétt, að ástæður þess að frumvarpið kemur í raun fram er þessi hæstaréttardómur og fyrir liggur að þeir sem Hæstiréttur dæmdi í hag hafa farið í skaðabótamál við ríkið upp á milljarða króna, háar upphæðir. Ef hagsmunagæsla þeirra sem voru undir í Al Thani málinu hefði verið líkt og hagsmunagæsla atvinnuveganefndar fyrir hönd almennings hefðum við aldrei fengið þessa niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu um vanhæfi dómara.

En nóg með það, þetta er niðurstaða nefndarinnar. Ég vil spyrja hv. þingmann og bið hann að svara mér núna vegna þess að ég hef aldrei náð því í umræðunni, sem hefur reyndar ekki verið löng í þingsal um þetta stóra mál, makrílmál, hvers vegna ekki var ákveðið að festa í lög þá leið sem farin hefur verið undanfarin ár og margir sjávarútvegsráðherrar hafa staðfest með reglugerð, allt frá því að Jón Bjarnason setti hana fram í fyrstu. Hvers vegna var ekki ákveðið að fara hreinlega þá leið, þar sem hugmyndin var að fleiri fengju aðgang að makrílkvótanum en færri, heldur farið í að hygla þeim stóru á kostnað þeirra minni?