149. löggjafarþing — 125. fundur,  19. júní 2019.

aðgerðaáætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna.

957. mál
[16:37]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiðum atkvæði um aðgerðaáætlun til að sporna við þeirri áhættu sem lítt heftur innflutningur á ófrosnu hráu kjöti og ógerilsneyddum matvælum er. Afstaða Miðflokksins er sú að við styðjum mótvægisaðgerðirnar svo langt sem þær ná. Þrátt fyrir þessa aðgerðaáætlun er það engin réttlæting á því að samþykkja þennan innflutning, heldur fremur viðleitni til að draga úr fyrirséðri áhættu og hugsanlegu tjóni sem af þessum innflutningi stafar. Við teljum aðgerðir í þessa veru nauðsynlegar, ekki bara núna heldur ætíð, en teljum þær alls ekki ganga nógu langt. Veruleg óvissa er um að mótvægisaðgerðirnar dugi til að tryggja þá vernd gegn dýrasjúkdómum sem okkur er nauðsynleg. Þær eru illa tímasettar, fjármögnun þeirra óviss og óráðin. Við leggjum áherslu á að ráðherra haldi Alþingi upplýstu um undirbúning aðgerðanna. Mikilvægt er að náðst hefur að fresta gildistöku málsins til 1. janúar nk. svo aukið ráðrúm gefist til að undirbúa aðgerðirnar. Miðflokkurinn leggur áherslu á að hagsmunaaðilum verði haldið upplýstum og hafi virka þátttöku í undirbúningnum og ferlinu öllu (Forseti hringir.) svo aðgerðirnar megi duga sem best.