149. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2019.

póstþjónusta.

270. mál
[22:19]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Það er ekki annað hægt en að bregðast við, a.m.k. í stuttu máli, þeirri ómálefnalegu ræðu og eiginlega dylgjum og aðdróttunum sem hér eru viðhafðar í garð nefndarmanna í hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Menn eru meðvitaðir um þá skýrslu sem hv. fjárlaganefnd óskaði eftir að gerð yrði um starfsemi fyrirtækisins Íslandspósts. Fréttir bárust af því í vikunni að sú skýrsla hefði borist til Alþingis og á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar var tekin ákvörðun um að vísa þeirri skýrslu til fjárlaganefndar sem ekki hefur tekið hana til efnislegrar umfjöllunar enn þá, enda erum við hér á síðustu dögum þingsins að stuðla að starfslokum í sátt. Það er því með ólíkindum að hlusta á yfirlýsingar og dylgjur í garð okkar sem höfum átt alveg hreint ágætt samstarf. Nokkuð góður friður hefur ríkt um málið í þessari nefnd.

Skýrslan fjallar um starfsemi ákveðins fyrirtækis sem hefur verið í póstþjónustu, Íslandspósts. Vissulega getur það skarast að einhverju leyti við þetta frumvarp sem hér er sem fjallar um framtíðarskipulag póstþjónustu á Íslandi, ekkert sérstaklega um þetta fyrirtæki. Mat okkar var að nálgast málið með ákveðnu orðalagi eins og hv. framsögumaður nefndarálits meiri hlutans fór yfir áðan og beina ákveðnum skilaboðum í nefndarálitinu til þeirra sem vinna úr þeirri lagasetningu sem hér er staðið fyrir. Að sjálfsögðu verður brugðist við þessari skýrslu með viðeigandi hætti. Ég hef ekki séð hana og veit ekki hvað kemur fram í henni. Ég geri ráð fyrir því að við í umhverfis- og samgöngunefnd þingsins munum eiga samstarf á vettvangi nefndarstarfsins við hv. fjárlaganefnd þegar kemur að úrvinnslu hennar á þessari skýrslu. Þá verða tækifæri til þess í haust að bregðast við ef sérstakt tilefni er til þess.

Framkvæmdarvaldið fer síðan með framkvæmd þessara laga og það er fjallað um það með skýrum hætti í þessum lögum og í nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar hvernig það skuli gert. Það þarf enginn að láta sér detta annað í hug en að framkvæmdarvaldið nýti sér þær upplýsingar sem fram koma í þessari skýrslu ef svo ber undir að þær eigi erindi inn í þetta mál og þessa framtíðarsýn.

Ég harma það að hv. þm. Helga Vala Helgadóttir skuli með þessum hætti reyna að tortryggja það ágæta samstarf og starf sem unnið hefur verið af heilindum af nefndarmönnum í hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Mér finnst það ljótur blettur á því ágæta samstarfi sem við höfum átt á undanförnum vikum og mánuðum um þetta mál og svo mörg önnur.

Virðulegi forseti. Ég vona að við látum ekki þinglokin verða með þessu óbragði.