149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:17]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður ræddi 10. gr. líkt og við ræddum þó nokkuð í 1. umr. og tengdi hana áliti fjármálaráðs, ekkert ósvipað og meiri hlutinn gerir í sínu nefndaráliti þar sem við drögum fram það sem hv. þingmaður kom inn á í sinni ræðu, að ráðið telur tilefni til endurskoðunar og breytingar á gildandi fjármálastefnu, að það sé í samræmi við grunngildi og skilyrði laga um endurskoðun fjármálastefnu. Varfærni og spennitreyja sem hv. þingmaður kemur inn á eru kannski þessi tilefni til að endurskoða.

Hann fer síðan ágætlega yfir óvissusvigrúm. Ég er aðeins að rekja mig í gegnum ræðuna til að koma að því sem ég vil taka út í fyrra andsvari sem er þetta þegar reglur verða yfirsterkari markmiðum. Mér finnst ágætisathugasemdir hjá hv. þingmanni þegar hann talar um forgangsröðun verkefna. Það er mikilvægt. Það er hluti af stefnumótun að forgangsraða verkefnum. Við erum í því að ná árangri um leið og við viljum vera skilvirk og viljum ná markmiðum okkar og mæla þá árangur út frá markmiðum.

Við erum ekkert endilega alltaf árangursrík og á sama tíma skilvirk. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvernig hann sér fyrir sér í raunveruleikanum að við vinnum í gegnum alla (Forseti hringir.) málaflokkana, málefnasviðin og ráðuneytin og svo inn í löggjafann slíka forgangsröðun.