149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:20]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal fara yfir þetta aðeins aftur. Ég fór aðeins yfir það í ræðunni en kannski í dálítið hröðu máli. Ráðuneytin setja stefnuna og vinna út frá stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Til að ná þeim markmiðum og þeirri stefnu sem ráðuneytin setja er einfaldlega haft samband við þá framkvæmdaraðila, stofnanir og ýmsa aðra aðila, sem eiga að sjá um framkvæmd þeirra verkefna sem leggja þá til hugmyndir um það hvernig hægt er að ná þangað sem stjórnvöld stefna. Þar geta komið margar hugmyndir. Þær eru alltaf flokkaðar til að byrja með til að sjá hvort þær séu augljóslega góðar eða slæmar miðað við grófa kostnaðargreiningu. Smám saman er unninn betri og nákvæmari listi án of mikils kostnaðar.

Það kemur oft mjög hratt í ljós hvaða verkefni eru augljósust, eru t.d. með mestan ávinning eða eru ódýrust og einföldust. Með því að safna öllum þeim verkefnum og þessari síu saman til fjármálaráðuneytis sem raðar þeim síðan niður fyrir hvert málefnasvið eftir þeim forgangi sem það fær frá ráðuneytunum erum við komin með langan lista, í raun miklu lengri lista en nær yfir fjármálaáætlunina, sem er gott, því að við á þingi viljum líka geta séð hvaða önnur verkefni eru ábatasöm í öðru samhengi en kannski bara fjárhagslegu, kannski út frá byggðasjónarmiðum eða einhverju því um líku sem við myndum kannski vilja toga upp í okkar breytingartillögum eða fjármagna aðeins meira til að ná niður á þau verkefni.

Þannig fæst sem sagt einfaldlega aðgerðalisti sem tengist þá stefnu stjórnvalda dreift á ár með kostnaðarmati í upphæðum sem súmmerast upp í því hversu mikinn pening þarf í málefnasviðin. Ef það er búið að úthluta einhverjum milljörðum í það málefnasvið sjáum við hversu langt niður þann lista við komumst. (Forseti hringir.) Svo er hægt að flokka út rauð og gul verkefni o.s.frv. til að meta hvort þau bætist við eða detti út ef það minnkar.