149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni ræðuna. Hann fór ítarlega yfir sviðið. Um leið og ég árétta sjónarmið meiri hlutans í þessum efnum langar mig að spyrja hv. þingmann um álit fjármálaráðs. Í 13. gr. laga um opinber fjármál er álit fjármálaráðs lögfest. Það er afar mikilvægt og hefur sýnt sig að það hefur ekki bara grundvallað umræðuna heldur er mjög uppbyggileg gagnrýni sem styður við það verkfæri sem er sú stefnumótandi áætlanagerð sem í lögunum felst og hefur nýst mjög vel í að styrkja þetta verkfæri, bæði í nýtingu fjármuna, í framsetningu, í að taka tillit til grunngilda og svo í samhengi við hagstjórn.

Í fyrirsögn frá hv. þingmanni sem hv. þingmaður fór yfir í ræðu sinni segir: Umsögn fjármálaráðs – áfellisdómur yfir fjármálastjórn ríkisstjórnarinnar.

Mér finnst þetta ganga fulllangt miðað við hlutverk fjármálaráðs og hversu mikilvægt það er fyrir þetta verkfæri okkar. Ég spyr hv. þingmann: Getum við ekki verið sammála um að álit fjármálaráðs er fyrst og fremst mikilvægt álit á því hvernig við getum styrkt þetta tæki? Það er ekki til þess að við (Forseti hringir.) tökum það úr samhengi og búum til einhvern slíkan dóm út frá álitinu.