149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:40]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður kom aðeins inn á skort á stefnu í ferðamálum okkar Íslendinga og þá finnst mér rétt að benda á að vinna hefur verið í gangi í allan vetur að ferðamálastefnu sem verður væntanlega tilbúin síðar á þessu ári. Það er búið að leggja mikla vinnu í hana og er unnið að þeirri stefnumótun akkúrat núna þannig að ég vildi koma því á framfæri að það er einmitt mikil vinna í þessu. Það er víða mikil vinna í atvinnuvegaráðuneytinu, hvort sem snýr að ferðamönnum, orku eða hinu og þessu. Það er verið að taka á ýmsum málum.

Varðandi síðan fjárveitingar til ferðaþjónustu sem hv. þm. Haraldur Benediktsson kom inn á áðan snúa þær að Flugþróunarsjóðnum. Þar hafði safnast upp fjármagn sem ekki hafði verið nýtt þannig að það er verið að ganga á þá sjóði eða lækka framlög í gegnum fjármálaáætlunina. Hæstv. ráðherra ferðamála hefur þó sagt að ef hraðar gangi á sjóðinn komi á seinni stigum meira fjármagn, þá í seinni áætlun. Það er ekki verið að leggja niður sjóðinn, það er bara verið að nýta betur þá sjóði sem liggja fyrir og eru til staðar í dag.

Meiri hluti fjárlaganefndar leggur í meirihlutaálitinu til að 25 millj. kr. fari í auknar rannsóknir í ferðaþjónustu. Persónulega vildi ég sjá féð fara sem mest í hagræna þætti ferðaþjónustunnar, ferðaþjónustureikningana, „Tourism Satellite Accounts“ eins og það heitir á erlendri tungu, sem myndi nýtast okkur sem var byrjað að vinna í um árið. Það datt niður á tímabili en það er nauðsynlegt þegar verið er að fá tilfinningu fyrir þeirri efnahagslegu þróun sem tengist ferðaþjónustu að þessir reikningar séu gerðir og þeir nýttir í stefnumótun fyrir land og þjóð. Það er það fyrsta en ég vildi skýra, þetta með Flugþróunarsjóðinn (Forseti hringir.) og mikilvægi þess að við rannsökum vel ferðaþjónustuna.