149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:42]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og lýsi ánægju minni með það ef ekki verða neinar skerðingar á Flugþróunarsjóðnum. Það hefði verið betra ef það hefði komið skýrt fram í álitinu. Þetta er mikilvægur sjóður, hann skiptir landsbyggðina miklu máli vegna þess að við sjáum fram á töluverðan samdrátt í ferðaþjónustu þar. Það lítur út fyrir að landsbyggðin muni fara verr út úr samdrætti í ferðaþjónustu en höfuðborgarsvæðið. Þess vegna er mikilvægt að við leitum leiða til þess að auka flugsamgöngur til landsbyggðarinnar erlendis frá.

Eins og við þekkjum er mikilvægi ferðaþjónustunnar ótvírætt og skapar tæplega 42% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar. Þessi grein er okkur ákaflega mikilvæg. Þess vegna er mjög óvarlegt að tala, eins og a.m.k. einhver ríkisstjórnarflokkanna hefur gert, um að skoða það að færa virðisaukaskattinn úr lægra þrepi, 11%, í efra þrepið, 24%. Allar slíkar vangaveltur eru óheppilegar fyrir greinina. Við erum dýrasta ferðamannalandið í Evrópu, við skulum átta okkur á því og eins og ég nefndi í ræðu minni, herra forseti, erum við annað eða þriðja dýrasta ferðamannalandið í heiminum. Við þurfum að finna leiðir til að breyta þessu, að við séum ekki svona dýrt ferðamannaland, og þá eigum við að fara varlega í allar yfirlýsingar hvað þetta varðar. Ég fagna þessu 25 millj. kr. árlega framlagi sem hv. þingmaður nefndi og ég gerði það í ræðu minni. (Forseti hringir.) Það er mikilvægt eins og staðan er.