149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[16:39]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég tek undir með hv. þingmanni, þetta er samvinnuverkefni um að bæta kjör, ekki síst þeirra sem hafa ekki tök á því að bæta hag sinn með til að mynda aukinni virkni á vinnumarkaði. Ég ætla að leyfa mér að horfa á tölurnar, málefnasvið 27 og 28. Verkefnið er að við getum nýtt fjármunina sem fara í þetta betur til að bæta kjörin. Ef ég ber þessi málefnasvið saman sé ég að 2016 fara rúmlega 54 milljarðar inn á málefnasvið 27 og sama fjárhæð inn á málefnasvið 28 sem er um málefni aldraðra. Þarna verður skurðpunktur. Síðan skilur á milli þegar við breytum kerfi fyrir málefni aldraðra. Það munar verulega í fjárhæðum. Í lok gildistíma áætlunar munar orðið 12 milljörðum þar á milli sem er ansi há fjárhæð. Á hverju ári er þetta svona.

Aukningin í hlutfallstölum inn á málefnasvið 28 er tæp 131%, 64% til öryrkja. Við sjáum að þarna er skurðpunktur sem segir mér að við getum gert betur. Við getum breytt þessum kerfum. Það mun kosta og þess vegna eigum við að vinna að því að nýta fjármunina betur en við eigum líka að taka umræðuna um þetta og vera ekki að blanda saman því þegar við erum að tala um fjármuni og svo einstaklingana (Forseti hringir.) í kerfinu sem við viljum sannarlega vinna fyrir. Við viljum bæta kjör þessa hóps.