149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:49]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það eru fleiri sem geta farið með vísurnar sínar aftur og aftur. Ég veit ekki hversu oft við eigum að tyggja það ofan í hv. stjórnarþingmenn að hér erum við að ræða um þær breytingar sem urðu milli umræðna á fjármálaáætlun og þar hefur sannarlega verið dregið saman. Yfirleitt belgjast útgjöldin út milli umræðna í meðförum fjárlaganefndar. Hér gerist það ekki. Það versta er að það er ekki eins og það sé verið að klípa kirsuberin af rjómakökunni eða óþarfa skrautið af kjólunum. Nei, það er gengið að fólkinu sem hefur það veikast. Öryrkjum er lofað ákveðinni upphæð og svo eru skorin niður áformin hjá fólki sem við vitum nú þegar að getur ekki lifað af grunnlífeyrinum. Það dregur hugsanlega fram lífið en getur ekki tekið þátt í öllum þeim fjölbreytileika og því yndislega sem mannlífið hefur annars upp á að bjóða. Ég hefði haldið að Vinstri græn og a.m.k. félagslegi hluti Framsóknar hefðu við þessar aðstæður getað hugsað sér að taka örlítið meira af ríkasta 1% í landinu eða meiri fjármagnstekjur af þeim sem fá hundruð milljóna eða tugmilljónir í fjármagnstekjur á ár, svo ég tali nú ekki um stórútgerðina sem skilar methagnaði ár eftir ár. Nei, það er ekki hægt. Hvað segir maður við slíkri forgangsröðun? Maður segir a.m.k. að ef félagslega taugin er enn þá til er djúpt á henni og þá gætir einhverrar taugaveiki.