149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[18:07]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Eins og hv. þm. Haraldur Benediktsson kom inn á áðan er nokkuð á daginn liðið og aðrir fjárlaganefndarmenn en varamaðurinn sem hér stendur hafa farið ítarlega ofan í marga þá þætti sem um er getið í áætluninni. Ég ætla kannski ekki í smáatriðum að endurtaka það.

Fyrst vil ég þó segja að eðli málsins samkvæmt, þar sem hér er í fyrsta sinn um endurskoðaða fjármálaáætlun að ræða, er ekki óeðlilegt að það séu á henni breytingar frá fyrri áætlun, einkum og sér í lagi þegar horft er til þess að það hafa orðið þær breytingar í íslensku efnahagslífi, sumar að einhverju leyti fyrirséðar en aðrar minna fyrirséðar, sem krefjast þess að ábyrg stjórnvöld aðlagi sínar tillögur og áætlanagerðir til að tryggja að rekstur hins opinbera, þau þjónustukerfi sem ríkið rekur, þau bótakerfi sem ríkið ber ábyrgð á, haldi áfram að geta þjónað þegnunum með þeim hætti sem við öll viljum.

Mér hefur þótt ágætt að hlusta á umræðuna í dag. Menn hafa verið misjafnlega mikið í smáatriðum, versus stóru myndinni. Ég ætla í upphafi að fókusera svolítið á stóru myndina. Ég mun tala nokkuð jöfnum höndum um fjármálastefnuna og fjármálaáætlunina, enda bæði málin undir í þessari umræðu. Það er athyglisvert að þrátt fyrir það sem margir hv. þingmenn á undanförnum dögum og vikum hafa kallað niðurskurð í þessari áætlun er það engu að síður þannig að á tímabili áætlunarinnar hækka gjöld hins opinbera um heil 19%, sem eru ekki litlir peningar. Það eru tæpir 164 milljarðar. Það er kannski, herra forseti, auðvelt að tala í stórum tölum þegar maður er orðinn vanur því og hefur kannski velt sér upp úr þeim en manni hættir til að missa sjónar á stóru myndinni þegar maður fer að sökkva sér niður í smáatriðin í svona áætlunum.

Áætlunin, þ.e. annars vegar stefnan og hins vegar áætlunin, er náttúrlega byggð á nýrri hagspá. Auðvitað er umhugsunarefni sú sveifla á milli hagspár ársins í fyrra, þegar spáð var á þriðja prósenta hagvexti á þessu ári, versus þá hagspá sem áætlunin er nú byggð á, þar sem gert er ráð fyrir niðursveiflu upp á 0,4% í spá Hagstofunnar. Þetta eru ótrúlega miklar breytingar á stuttum tíma. Þær endurspegla vissulega þá staðreynd sem bæði ég og fleiri hafa áður nefnt í ræðum hér á Alþingi, að við erum með hagkerfi sem er þrátt fyrir allt tiltölulega smátt, byggir á tiltölulega fáum stoðum og jafnvel tiltölulega lítil hnik innan eins geira hagkerfisins hafa gríðarlega mikil áhrif á hagspána. Við erum t.d. þannig sett að gjaldþrot eins flugfélags á Íslandi hnikar til hagspá, sem vissulega myndi miklu síður gerast ef við værum í þó ekki nema milljón manna þjóðfélagi. Þetta eru staðreyndir sem er vert að muna eftir. Auðvitað breytir það ekki þeirri staðreynd að við erum lítið hagkerfi sem tekur þess vegna höggunum öðruvísi en stærri hagkerfi myndu gera.

Við þessum breytingum er brugðist fyrst og síðast með því að afgangur af ríkisrekstri er tekinn niður. Það er hægt á niðurgreiðslu skulda frá því sem var í fyrri áætlunum og það eru gerðar breytingar á skattkerfi, að hluta til með tekjuöflun en að hluta til einnig einmitt í þeim tilgangi að mæta þeim breytingum í hagkerfinu sem geta hitt það hvað verst fyrir þannig að hinir verst stöddu taki ekki höggið. Þannig eru skattalækkanirnar sem til að mynda eru boðaðar á þessu ári og í tengslum við kjarasamningana einmitt hugsaðar til þess að þær komi þeim sem eru með lægstu launin og lægstu tekjurnar best. Þetta skiptir allt miklu máli, herra forseti. Við erum til að mynda, sem er mikilvægt að muna, að bæta við í grænum sköttum, sem er einmitt það ákall sem ég hef heyrt, beint og óbeint, í ræðum margra þingmanna, bæði í dag og á undanförnum vikum og það er vel. Auðvitað má alltaf segja sem svo að það megi gera betur og auðvitað væri æskilegt að við værum öll komin á þá blaðsíðu að innheimta grænna skatta ætti að vera lykilatriði í tekjuöflun ríkisins, en það eru ekki allir þar. Merkin úti í samfélaginu eru hins vegar mjög hughreystandi. Við höfum viku eftir viku séð ungmenni á Austurvelli krefjast þess að stjórnvöld grípi til aðgerða í umhverfismálum og raunar sjást þess merki í þessari fjármálaáætlun. Framlög til umhverfismála á tímabilinu aukast um 24%. Og aftur, herra forseti: Þar sem prósenturnar segja kannski ekki allt, þá erum við að tala um hækkun á þeim málaflokki úr 18 milljörðum í 22. Það eru rúmir fjórir milljarðar sem þarna munar. Þetta skiptir máli.

Ég ræddi, að mig minnir við fjármálaáætlunarumræðuna í fyrra, m.a. um gagnrýni fjármálaráðs á hversu hart gólfið í fjármálastefnunni væri og benti, eins og raunar fleiri hafa gert, á þann vanda sem okkur væri á höndum ef áföll yrðu. Þá væri erfitt, innan stefnunnar og innan þess svigrúms sem stefnan leyfði, að bregðast við. Fjárlaganefnd er við framlagningu þeirra breytingartillagna sem hér eru einmitt að bregðast við þessu. Óvissusvigrúmið sem í boðaðri fjármálaáætlun var 0,4% er hækkað upp í 0,8%. Það þýðir ekki að óvissusvigrúmið verði notað. Það þýðir hins vegar að stjórnvöld hafa tækin sem þarf til að bregðast við ef svörtustu myndirnar í hagsveiflunni verða að raunveruleika. Þetta skiptir verulegu máli. Þrátt fyrir samdrátt í tekjum ríkisins, eins og fleiri ræðumenn hafa komið inn á í dag, eru framlög til langflestra sviða velferðarmála aukin. Raunar er heildaraukningin á framlögum til málaflokka 23–32, þ.e. heilbrigðis- og velferðarmál, 93 milljarðar á tímabili áætlunarinnar. Útgjöld til þessara málaflokka fara upp í 533 milljarða, eða ríflega helming af heildarútgjöldum ríkisins.

Þar sem er dregið úr útgjaldaaukningunni koma stærstu breytingarnar fram á framkvæmdaliðum sem verða meiri á seinni hluta fjármálaáætlunarinnar, sem eðlilegt er í sjálfu sér vegna þess að við gerum ekki ráð fyrir því að niðursveiflan í hagkerfinu verði svo löng að ríkið þurfi að halda uppi háu framkvæmdastigi til að dýpka ekki kreppuna út allt tímabilið. Þetta er mikilvægt.

Það er eitt sem mig langar sérstaklega að nefna í þessu sambandi, sem hv. þm. Haraldur Benediktsson kom reyndar lítillega inn á áðan í ræðu sinni, það er sú breyting sem er á framlagi til liðarins Hjúkrunarþjónusta og endurhæfing, sem málefnasvið nr. 25. Það er nefnilega þannig, og ég hef sagt það áður og ég ætla að halda áfram að þreyta hv. þingmenn á að ræða það, að ef við ætluðum að halda áfram á sömu braut í kostnaðaraukningu innan þess málaflokks miðað við þá fyrirsjáanlegu fjölgun sem verður í hópi aldraðra, þ.e. ef við ætluðum að halda okkur við sama kostnaðarmódelið áfram, myndum við enda á tiltölulega stuttum tíma með því að sprengja útgjaldaramma ríkisins. Ef við gæfum okkur sömu forsendur 20 ár fram í tímann þyrftum við á þeim tíma að byggja sirka 8.000 ný hjúkrunarrými. Hv. þingmenn hljóta að sjá að það væri dálítið sérkennileg nálgun á framtíðina að ætla að halda áfram eftir 20–30 ár að vera með sama módelið, þ.e. að ganga út frá því að áfram „vilji“ 1% þjóðarinnar vera inni á hjúkrunarheimilum. Ég a.m.k. sem heilbrigðismenntaður maður, einmitt í þessu tiltekna fagi, þ.e. málefnum aldraðra eða öldrunarlækningum, álít það ekki spennandi framtíðarsýn og þess vegna fagna ég þeirri nálgun nefndarinnar að þarna þurfi virkilega að taka til hendinni og skoða hvort við sjáum ekki nýjar leiðir.

Einhverjum þingmönnum hefur orðið tíðrætt um að aukningin til nýsköpunarmála sé ekki nægilega mikil á tímabili áætlunarinnar. Hún er engu að síður að hreyfast úr 14,9 milljörðum upp í 19 milljarða. Aftur má þarna segja að hagkerfi eins og það íslenska sem er byggt á fremur fáum stoðum þurfi einmitt á því að halda að við eflum nýsköpunarstarfsemi og eflum framlög til þeirra málaflokka. En einhvern tímann hefði það þótt alveg þokkalega vel í lagt að auka framlög til eins málaflokks um 37% og ég held að ég haldi mig við þá skýringu. Það er býsna myndarlega gert. Auðvitað vildum við alltaf gera meira. Auðvitað vildum við alltaf sjá að ríkið og samfélagið í heild hefði meira svigrúm en við kannski sjáum akkúrat í svipinn fyrir okkur.

Það hefur líka verið rætt um það í umræðunni, ekki bara inni á þingi heldur úti í samfélaginu, að þessi fjármálaáætlun þýði niðurskurð til einhverra tiltekinna hópa í samfélaginu og aldraðir og öryrkjar hafa þá gjarnan verið nefndir. Þetta er auðvitað ekki rétt. Það er mjög mikilvægt, herra forseti, að það komi skýrt fram í þessari umræðu að það er verið að auka framlögin til þessara málaflokka. Bara á milli áranna 2019 og 2020 fara framlög til málaflokksins Örorka og málefni fatlaðs fólks úr rúmum 68 milljörðum í rúma 72 milljarða. Ég á ekki von á því að það séu margir hér inni eða meðal þeirra sem hlusta á sem trúa því í alvöru að talan 72 sé lægri en 68. Það finnst mér frekar ólíklegt. Það sama á raunar við um málefni aldraðra. Þar er einnig umtalsverð hækkun.

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna umfram það sem hér er þegar sagt en vil segja að lokum að fjármálaáætlun og fjármálastefna hvers tíma er áætlun byggð á einhverjum líkindum. Núna byggjum við hana á þeim spám sem fyrir liggja og raunar fleiri en einni. Þær spár geta breyst eins og spár hafa gert í gegnum tíðina. Ég þykist nokkuð viss um það að núverandi stjórnvöld munu bregðast við því eins og þurfa þykir, þegar og ef að því kemur að þurfi að endurskoða þessa áætlun á næsta ári.