149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[13:29]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég hlustaði á fyrri partinn í vor þar sem ég horfi ekki á Eurovision og það er vissulega rétt hjá ágætum hv. þingmanni að ekkert nýtt hefur komið fram, alla vega ekki af hennar hálfu, síðan þá.

Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann út í 102. gr. EES-samningsins. Treystir þingmaðurinn ekki þeirri grein? Telur hún bara upp í hundrað, frá 0 upp í 100? Í 102. gr. er getið um að það megi hafna innleiðingum og vísa þeim til sameiginlegu EES-nefndarinnar.

Mig langar ekki til þess að fá sagnfræðilegt álit á því að það hefði verið hægt að gera það fyrr. Ég er sammála þingmanninum um að það hefði verið hægt að gera það fyrr en það er hægt að gera það núna fyrst við gerðum það ekki þá.

Mig langar líka til að biðja hv. þingmann um að lýsa fyrir okkur betur þeim naglföstu fyrirvörum sem hún hefur sjálf lýst þannig að séu eins og Framsóknarflokkurinn, í smekkbuxum með belti og axlabönd, álímdan hártopp og í nýjum skóm. Og mig langar til að fá lagalega skýringu á því hvernig þessir fyrirvarar haldi. Einn ágætur fræðimaður, ásamt öðrum, sem hv. þingmaður vísaði ekki til en þrátt fyrir það hefur manni skilist af fréttum að sá ágæti maður hafi orðið hv. þingmanni eftirminnilegur er Arnar Þór Jónsson héraðsdómari. Hún minntist ekki á þau varúðarorð sem hann t.d. hefur fært fram eða Eyjólfur Ármannsson. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hún hafi móðgast of mikið til þess að lesa minnisblað Arnars Þórs sér til gagns og hvort hún hafi ekki kynnt sér það sem Eyjólfur Ármannsson hafði fram að færa í þessu máli, þannig að öllu sé til skila haldið.

Mig langar að fá útlistun á þessu. Líka frá aðstoðarmanni hennar.