149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:09]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Senn líður að því að við tökum þá afdrifaríku ákvörðun að greiða atkvæði um innleiðingu regluverksins sem orkupakki þrjú er. Komið hefur fram að ekki hefur verið eytt fáum stundum í umræðuna. Og hverju hefur hún skilað? Hefur hún verið hnitmiðuð? Hefur henni verið beint í rétta átt? Því meira sem rætt hefur verið um innleiðingu orkupakka þrjú, þeim mun fleiri spurningar hafa vaknað.

Ég er svo einföld í minni lögfræðiþekkingu að ég hefði viljað líta á sameiginlegan samning okkar, EES-samninginn, sem ákveðinn grundvöll til þess að sjá hvar við stöndum gagnvart því raunverulega að semja um þá sérstöðu sem ég tel að við Íslendingar höfum. Að heyra þingmann eftir þingmann koma upp og lýsa því yfir, um leið og þeir segjast ætla að styðja við orkupakka þrjú, að: Jú, við ætlum að styðja við hann, við viljum endilega undirgangast markmið Evrópusambandsins í sameiginlegum innri raforkumarkaði, en auðvitað viljum við ekki sæstreng. Auðvitað ætlum við ekki að leggja sæstreng.

Maður spyr sig þá: Hvers vegna í veröldinni erum við þá að innleiða þennan orkupakka? Af hverju göngum við skrefinu lengra inn í markmið sambandsins um sameiginlegan innri raforkumarkað? Af hverju? Erum við hrædd við að láta reyna á það endanlega fyrir sameiginlegu EES-nefndinni? Sérstaklega núna eftir að þjóðin er í rauninni loksins að rumska, þegar við horfumst í augu við raunveruleika málsins sem er nákvæmlega þessi: Er það það sem við viljum, að ganga skrefinu lengra og næst með orkupakka fjögur?

Virðulegi forseti. Það er athyglivert að benda á að það er ljóst og vitað að orkupakki fjögur hefur legið inni á borðum hjá Samtökum atvinnulífsins og fleirum í landinu þrátt fyrir að við, kjörnir fulltrúar á Alþingi Íslendinga, höfum ekki enn fengið að njóta þess að skoða hann, hvað þá á íslensku. Auðvitað getur maður gúglað hann og sótt hann. En er hann íslenskaður? Nei, það er hann ekki.

Þannig að maður spyr sig: Á hvaða vegferð eru stjórnvöld, stjórnvöld sem jafnvel hafa sagt að þau væru ekki höll undir það að við göngum í Evrópusambandið? Á hvaða vegferð er Sjálfstæðisflokkurinn? Á hvaða vegferð er Framsóknarflokkurinn? Á hvaða vegferð eru Vinstri græn?

Er það furða að fólk sé orðið ringlað? Það áttar sig ekki á því að í annan stað á ekki að koma okkur inn á innri markaðinn — nei, við ætlum ekki þangað af því það eru ekki okkar hagsmunir — en við viljum samt innleiða regluverkið. Er þetta þrælsótti? Erum við virkilega það hrædd við samninginn sem hefur reynst okkur vel, sem er nauðsynlegur fyrir okkur og hefur skapað okkur á margan hátt þá velsæld sem við búum við í dag? Eru stjórnvöld það hrædd við þann samning að þau eru ekki tilbúin til að láta reyna á hann? Ég á ekkert einasta aukatekið orð.

Hér er verið að tala um stjórnskipulega fyrirvara sem eiga í rauninni að halda, sem ég persónulega segi að haldi hvorki vatni né vindi, en þeir eiga að halda og koma í veg fyrir að við þurfum í rauninni að virkja þriðja orkupakkann. Við erum að innleiða hann en hann virkjast samt ekki. Hvers lags eiginlega innleiðingarferli er þetta? Er það þetta sem EES-samningurinn snýst um, að við þykjumst bara ætla að innleiða? Eru það rök sem stjórnarliðar telja nógu góð í andlitið á okkur? Við þykjumst ætla að innleiða hann en hann er ekki til neins. Þetta er allt í plati. Er það það sem við erum að segja?

Það er algjört lágmark að við látum reyna á þá samninga sem við höfum gert, þ.e. ef við erum að meina það leynt og ljóst að við höfum ekki ætlað okkur að ganga alla leið inn. Ég þarf ekki að standa hér og blása í þessar tíu mínútur, kannski eru þær að verða búnar, ég veit það ekki því að ég er svo óðamála. En það breytir ekki þeirri staðreynd að mér finnst nálgunin hafa verið sú að við erum að kaupa sérfræðinga, kalla til erlenda aðila sem hafa starfað við EFTA-dómstólinn í 22 ár og eru algerir Evrópusinnar, hafa verið innan búðar með það að reyna að koma á sameiginlegum raforkumarkaði, innri markaði Evrópu. Hverjum dettur í hug að það sem við fáum sé hlutlaust þegar við kaupum þá aðila? Dettur það einhverjum í hug? Alla vega ekki mér. Ég er viss um að það eru margir þarna úti, Íslendingar, kjósendur okkar, sem geta ekki litið það hlutlausum augum. Það er ekki hægt. Hverjum dettur það í hug þegar við erum að fá sérfræðing eftir sérfræðing, prófessor eftir prófessor, jafnvel dómara frá Evrópudómstólnum? Hvernig getum við dregið þá í dilka og sagt að sumir hafi rétt fyrir sér en aðrir ekki? Af hverju ekki að virða allt sem þeir hafa að segja? Af hverju ekki að virða skoðanir hver annars?

Ef þetta er það sem hæstv. ríkisstjórn vill gera, að koma okkur undir sameiginlegan innri markað Evrópu, af hverju þá ekki að koma því út úr sér? Af hverju ekki að segja sannleikann?

Fjórði orkupakkinn liggur fyrir og fimmti orkupakkinn er um vatnið. Það er vatnsskortur víða í heiminum, ekki enn þá hér. En þetta er okkar fjársjóður. Við gröfum ekki enn þá gull eða eðalmálma úr jörðu en við eigum hreint vatn, við eigum hreina orku. Það er jú orkuskortur. Það er skortur á grænni orku úti í Evrópu.

Virðulegi forseti. Það er stefna Flokks fólksins og hefur alltaf verið að við virkjum okkar eigið land og skilum orkunni til landsmanna. Það er orkuskortur fyrir norðan. Það er orkuskortur á Reykjanesi, það er orkuskortur fyrir vestan og við erum að keyra jafnvel á dísil í hæstu toppum vegna þess að dreifikerfið er ekki nógu öflugt. Við erum að framleiða 30% umframorku miðað við það sem við nýtum í raun því að við getum ekki nýtt hana, jafnvel þótt það sé vöntun á henni.

Á hvaða vegferð eru stjórnvöld sem brenna 66.000 tonnum af kolum á Bakka á ári? Á hvaða vegferð eru þau sem þykjast vera að hugsa um loftslagsvána og kolefnissporið? Á hvaða vegferð eru stjórnvöld sem ætla að flytja inn í tonna vís lambahryggi einhvers staðar lengst utan úr heimi og flytja út okkar kjöt í staðinn niðurgreitt? Maður bara getur ekki náð utan um það hvers lags stjórnarhættir eru hér á ferðinni.

Það eina sem ég kalla eftir er: Af hverju segið þið ekki satt, þið sem greiðið atkvæði með þessum orkupakka? Af hverju segið þið ekki satt um að þetta sé ykkar vegferð? Af hverju getið þið ekki bent á að þið séuð algerlega höll undir að við göngum alla leið í Evrópusambandið og það sem það hefur að bjóða, sameiginlegan innri raforkumarkað? Af hverju segið þið ekki að við viljum frekar koma orkunni okkar þangað út en að niðurgreiða t.d. orkuna til okkar eigin framleiðenda, samanber með ávexti og grænmeti? Af hverju getum við ekki orðið sjálfbær um það? Hvers vegna skyldum við menga með kolefnisspori með því að flytja inn ávexti og grænmeti? Af hverju framleiðum við ekki sjálf? Af hverju fengum við ekki undanþágu hjá sameiginlegu EES-nefndinni? Af hverju stóðum við ekki í lappirnar og sögðum: Hingað og ekki lengra?

Ég tel að það sé gagnkvæmt. Þeir hafa líka hag af því að hafa okkur í samningi, ekki bara við.

Ég segi það að Flokkur fólksins hefur ætíð sagt, frá degi eitt, löngu áður en kom til umræðu um orkupakka þrjú, og hef ég skrifað greinar um það, að auðlindirnar væru okkar en ekki Evrópusambandsins. Það dylst engum að með innleiðingu þriðja orkupakkans er eitt stærsta málið að Orkustofnun verður algerlega slitin úr tengslum við allt og verður orðin sjálfstæð.

Og hver er það sem sendir henni skilaboð? Þó að við heyrum ekki undir ACER og það sé staðreynd að það gerist ekki nema með tilkomu sæstrengs og við séum orðin tengd inn á markaðinn þá breytir það ekki þeirri staðreynd að við fáum vinsamleg tilmæli eins og við höfum fengið með að innleiða hverja reglugerðina á fætur annarri, hvort sem hún nýtist okkur eða ekki. Við höfum í einhverjum þrælsótta verið eins og stimpilpúðar í stað þess að styrkja stöðu okkar inni í sambandinu, inni í samningnum okkar. Og þegar við erum að spara aurinn og kasta krónunni ættum við a.m.k. að vera með okkar fulltrúa þarna sem berjast fyrir hagsmunum okkar í þeim samningum, þjóðréttarlegum sem öðrum, EES-samningnum. Við eigum að sjálfsögðu að fylgja þeim eftir og láta ekki alltaf taka okkur í bólinu og búið að ganga frá öllu saman þegar það kemur inn á borð hjá okkur.

Góðu fréttirnar eru þær að mér skilst að það eigi að verða einhver breyting þar á. Mér skilst að við ætlum að efla nákvæmlega þetta eftirlit þannig að við séum ekki endalaust tekinn í bólinu og lítum út eins og bjánar þegar við ætlum síðan allt í einu að segja: Hingað og ekki lengra. Stopp.

Staðreyndin er sú að þjóðin er vöknuð, það er mjög mikill urgur í samfélaginu út af nákvæmlega þessu. Ég segi: Við verðum að líta heildstætt á myndina: Markmiðið er aðeins eitt, sameiginlegur innri raforkumarkaður Evrópu. Það er markmiðið.