149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:23]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir andsvar hans. Hann talar um að fyrirvararnir hafi alltaf verið þarna. Við höfum verið að spyrja um hvar þeir væru. Við höfum fengið mörg svör, fjöldamörg svör, alls kyns svör. Sem segir hvað? Hvað segir þetta óðagot okkur þegar við fengum þessi svör í maí? Hvað segir það okkur að í öðru orðinu er staðhæft að málið hafi hlotið afskaplega ítarlega skoðun og búið sé að velta við öllum steinum, en svo þegar spurt er einfaldra spurninga, eins og þessi er: Hvar er þessi lagalegi fyrirvari? Þegar svo er spurt koma vægast sagt óreiðukennd svör frá stjórnarliðum.

Hvar er þennan lagalega fyrirvara að finna? Hefur hv. þingmaður uppástungu? Vill hann bæta við listann? Það sem skiptir helst máli er auðvitað — hver sem hann er, hvar sem hann er — hvaða gildi hann hefur.

Ég hef lesið þetta álit. Ég veit alveg hvert efni fyrirvarans er. Efnið er auðvitað sæstrengur til Íslands og að við fáum að ráða því sjálf. En hvert er formið? Þegar hann birtist og hvernig sem hann birtist hefur þá framsetning hans að forminu til eitthvert gildi þjóðréttarlega? Það er mergurinn málsins. Ég hef ekki heyrt neinn halda því fram með góðum rökum að það hafi eitthvert gildi. Menn hafa bent á ýmislegt, að sjálfsögðu, ég hef heyrt það, yfirlýsingar og fleira. Það eru alls kyns gildi, pólitísk gildi. En hefur þetta þjóðréttarlegt gildi? Erum við varin fyrir skaðabótakröfum og samningsmáli? Nei, álitsgjafarnir segja það sjálfir. Álitsgjafarnir sem stjórnin byggir á.