149. löggjafarþing — 132. fundur,  2. sept. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[10:53]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég hef tekið eftir því í þessari umræðu að oft er mikill munur á því sem stjórnmálamenn eða aðrir segja um þetta mál og því sem stendur í pakkanum sjálfum. Nú fór hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson með ræðu sem fjallaði um nokkur mál innan Evrópusambandsins. Ég vil hvetja fólk til að lesa þau mál, fletta þeim upp og kynna sér þau mál sjálft. Ekkert í rökstuðningi hv. þingmanns eru rök gegn þriðja orkupakkanum, ekki neitt, ekki málið gegn Belgíu, ekki málið í Noregi, ekki málið gegn Kýpur. Vinsamlegast skoðið það sjálf, ekki trúa okkur stjórnmálamönnunum, skoðið þetta bara sjálf. Sannleikurinn leitar á réttan stað á endanum ef fólk kynnir sér málin, en einmitt alls ekki annars.